Lífið

Seldi öll sín verk á fyrstu sýningunni

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Úlfur Logason vonast til þess að geta unnið sem myndlistarmaður á komandi árum.
Úlfur Logason vonast til þess að geta unnið sem myndlistarmaður á komandi árum.
„Ég bjóst alls ekki við svona góðum viðbrögðum en þetta var rosalega skemmtilegt,“ segir hinn sextán ára Úlfur Logason, nemi á listnámsbraut við Verkmenntaskólann á Akureyri, en Úlfur opnaði sína fyrstu myndlistarsýningu í Kartöflugeymslunni fyrir norðan á dögunum.

Sýningin fékk frábærar viðtökur og var hann búinn að selja öll verkin á fáeinum klukkustundum. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á myndlist. Afi minn var myndlistarmaður og pabbi minn er arkitekt svo þetta er aðeins í fjölskyldunni,“ segir Úlfur, sem kveðst hafa langmestan áhuga á því að mála myndir af fólki.

Spurður að því hvort stefnan sé sett á að vinna við myndlist í framtíðinni svarar Úlfur því játandi. „Mér finnst þetta rosalega gaman svo það er algjörlega planið mitt.“

Alls seldust tólf olíumálverk á sýningunni ásamt nokkrum pennateikningum og því er um ágætis vasapening að ræða fyrir ungan og upprennandi myndlistarmann. Sýningin verður áfram opin út vikuna og fram yfir næstu helgi svo áhugasamir ættu að kíkja inn í Kartöflugeymsluna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×