Innlent

Segja um 22 þúsund hafa mætt á Austurvöll

Bjarki Ármannsson skrifar
Skipuleggjendur mótmælafundar á Austurvelli í kvöld segja um 22 þúsund manns hafa mætt, samkvæmt sinni talningu, til þess að krefjast þess að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segi af sér.

Í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 fyrir stuttu sagði Sara Elísa Þórðardóttir, einn skipuleggjenda, að um 22 þúsund hefðu mætt og mótmælt friðsællega.

Arnar Rúnar Marteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði að samkvæmt talningu lögreglu á sjötta tímanum hefðu um átta til níu þúsund manns verið á Austurvelli. Mikið flæði hefði þó verið á fólki og ekki ólíklegt að heildarfjöldinn í miðbænum hefði verið um tíu til fimmtán þúsund manns.

Hann lagði áherslu á að hann véfengdi alls ekki tölur mótmælenda enda hefði verið töluverður straumur hjá fólki í gegnum Austurvöll. Skipuleggjendur mótmælanna segja augljósan vilja fyrir hendi hjá almenningi að ríkisstjórnin víki.

Arnar sagði að mótmælin væru alls ekki róleg, fólk hefði kastað hlutum í Alþingishúsið og bönunum og öðru verið kastað að lögreglumönnum. Enginn var handtekinn eftir að mótmælin hófust, að sögn lögreglu, og enginn særðist. Fyrr í dag var einn handtekinn fyrir að henda skyri í þinghúsið.

Viðtalið við Arnar Rúnar má sjá í spilaranum að ofan.

22,547 manns taldir kl 17.30. Þá komst fólk ekki lengur að og stóð í hundruða, ef ekki þúsundatali fyrir utan Austurvöll. Talið á öllum fjórum inngöngum frá kl. 16.30.

Posted by Daði Ingólfsson on 4. apríl 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×