Erlent

Segja sjóræningjastarfsemi ógna hagkerfum heimsins

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
The Pirate Bay telur skopstælingu CIAPC brot á lögum um höfundarétt.
The Pirate Bay telur skopstælingu CIAPC brot á lögum um höfundarétt.
Skráarskiptisíðan The Pirate Bay hefur höfðað mál á hendur finnsku höfundaréttarsamtakanna CIAPC vegna brots á höfundaréttarlögum.

Samtökin fara mikinn í baráttu sinni gegn ólöglegri dreifingu efnis á internetinu, og í nýjustu herferð sinni beina þau spjótum sínum að The Pirate Bay.

Á vefsíðu CIAPC hafa þeir stælt forsíðu The Pirate Bay, skipt sjóræningjaskipinu út fyrir sökkvandi skip, og hermt eftir öðru viðmóti. Þegar smellt er á lógó CIAPC er notandinn fluttur yfir á aðra síðu þar sem honum eru kynntir kostir þess að nálgast afþreyingarefni löglega.

Í kjölfarið hefur The Pirate Bay farið í mál, og telja forsvarsmenn síðunnar að CIAPC sé með skopstælingunni að brjóta lög um höfundarétt.

„Okkur blöskrar þessi framkoma. Fólk verður að skilja muninn á réttu og röngu. Að stela efni sem þessu á internetinu er ógn við hagkerfi heimsins," segir talsmaður The Pirate Bay í samtali við vefsíðuna TorrentFreak.

Ekki er erfitt að greina hæðnistóninn í talsmanninum þó málsóknin sé alvöru. The Pirate Bay fer fram á fimm þúsund evrur í skaðabætur en það er vel undir einni milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×