Erlent

Segja samfélagsmiðla þurfa að gera meira gegn öfgum

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðherrar í Bretlandi segja að tæknifyrirtæki og samfélagsmiðlafyrirtæki verði að grípa til aðgerða gegn öfgum og koma í veg fyrir dreifingu áróðurs hryðjuverkasamtaka. Amber Rudd, innanríkisráðherra, segir fyrirtæki eins og TwitterGoogle og Facebook þurfa að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.

Boris Johnson, utanríkisráðherra, kallar eftir því internetfyrirtæki þrói aðferðir til að bera kennsl á boðskap og áróður og fjarlægja efnið og segir „ógeðslegt“ hve illa fyrirtæki hafa staðið sig í þessum efnum.

Rudd skrifaði grein í Telegraph í kjölfar Westminnsterárásarinnar. Þar segir hún að hver einasta hryðjuverkaárás staðfesti hlutverk internetsins í dreifingu efnis sem sem ýti undir ofbeldi og dreifingu áróðurs.

Lögreglan í Bretlandi segir Khalid Masood, árásarmanninn í Westminnster, hafa verið einan að verki. Þó sagðist lögreglan staðráðin í að komast að því hvort hann hefði orðið fyrir áhrifum hryðjuverkasamtaka. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og sagt að Masood hafi verið „hermaður“ samtakanna.

„Við þurfum hjálp frá samfélagsmiðlafyrirtækjum eins og GoogleTwitter og Facebook,“ skrifaði Rudd.

Hún nefndi ekki einungis risana í samfélagsmiðlaheimum, heldur einnig fyrirtæki eins og TelegramWordpress og Justpaste.it.

Johson var í viðtali við Sunday Times þar sem hann segir „ógeðslegt“ hve illa Google og aðrir tæknirisar hafi staðið sig í að eyða efni hryðjuverkasamtaka og öfgamanna. Þessi sömu fyrirtæki birtu auglýsingar við hlið þessa áróðurs.

Hann sagði fyrirtækin ekki grípa til aðgerða þegar þeim væri bent á efni hryðjuverka- og öfgasamtaka og kallaði eftir því að umrædd fyrirtæki þrói tæknilegar aðferðir til að bera kennsl á efnið og fjarlægja það.

„Illskan blómstrar þegar góðir menn eru aðgerðarlausir og það er að gerast í þessu tilfelli.“

Samkvæmt frétt BBC baðst yfirmaður Google í Evrópu afsökunar fyrr í mánuðinum eftir að auglýsingar birtust með efni hryðjuverkasamtaka á Youtube. Hann hét því að endurskoða stefnur Google og auka eftirlit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×