Erlent

Segir Trump vilja taka á málum ólöglegra innflytjenda á sanngjarnan og mannúðlegan hátt

atli ísleifsson skrifar
Donald Trump er umdeildur maður.
Donald Trump er umdeildur maður. Vísir/AFP
Nýskipaður kosningastjóri Donald Trump segir að forsetaframbjóðandinn sé staðráðinn í að taka á málefnum ólöglegra innflytjenda á sanngjarnan og mannúðlegan hátt.

Í frétt Reuters kemur fram að orðin séu af mörgum talin marka stefnubreytingu í nálgun Trump í málaflokknum.

Trump hefur til þessa verið harðorður í afstöðu sinni þegar kemur að málefnum óskráðra innflytjenda í Bandaríkjunum og hefur hann sagst ætla að vísa ellefu milljónum ólöglegra innflytjenda úr landi. Þá hefur hann sagst ætla að láta reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að stöðva straum fólks til Bandaríkjanna.

Margir hafa fordæmt Trump vegna nálgunar hans og sagt stefnu hans ómannúðlega, óraunhæfa og of kostnaðarsama.

Skoðanakannanir benda til þess að stuðningur við Trump hafi minnkað umtalsvert síðustu vikurnar, en síðustu daga hefur Trump markvisst reynt að ná til svartra og rómansk-amerískra kjósenda, hópa þar sem hann hefur átt undir högg að sækja.

Kellyanne Conway, nýr kosningastjóri Trump, sagði í samtali við CNN í gær að Trump væri staðráðinn í að nálgast málefni ólöglegra innflytjenda á sanngjarnan og mannúðlegan máta.

Sagði hún Trump styðja að farið sé að ákvæðum laga. Aðspurð um hvort stefna Trump fæli í sér að stofnun sérstakrar brottvísunareiningar bandarískra yfirvalda, sagði hún að ákvörðun um slíkt hefði enn ekki verið tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×