Erlent

Segir það mistök hjá Sony að hætta við dreifingu myndarinnar

Heimir Már Pétursson skrifar
Sony leitar nýrra leiða til að dreifa kvikmyndinni.
Sony leitar nýrra leiða til að dreifa kvikmyndinni. Vísir/AP
Barack Obama forseti Bandaríkjanna segir að það hafi verið mistök hjá Sony að hætta við dreifingu kvikmyndarinnar the Interview og Bandaríkjamenn geti ekki látið einræðisherra út í heimi ritskoða bandarísku þjóðina. Sony leitar nýrra leiða til að dreifa kvikmyndinni. 

Stjórnvöld í Norður Kóreu hafa verið sökuð um að hafa hakkað tölvukerfi Sony kvikmyndafyrirtækisins og stolið þaðan nánast öllum tölvugögnum þar með persónulegum upplýsingum um starfsmenn fyrirtækisins.

Sky fréttastofan greindi frá því í morgun að stjórnvöld í Norður Kóreu segðust geta sannað að þau hafi ekki staðið að töluárásinni á Sony og legðu til að bandarísk og norður kóresk stjórnvöld ynnu saman að því að upplýsa málið.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna sagði á fundi með fréttamönnum í Hvíta húsinu í gærkvöldi að Sony hefði orðið fyrir miklum skaða af tölvuárásinni þegar hann var spurður hvort fyrirtækið hefði gert mistök með því að stöðva dreifingu myndarinnar the Interview. En um grínmynd er að ræða þar sem Kim il Un forseti Norður Kóreu er tekinn af lífi. Obama sagði starfsmönnum Sony hafa verið ógnað.

Forsetinn sagðist hafa samúð með fyrirtækinu og starfsmönnum þess en að því sögðu teldi hann Sony hafa gert mistök með því að hætta við dreifingu myndarinnar. Hins vegar neituðu margar kvikmyndahúsakeðjur í Bandaríkjunum að sýna myndina af ótta við hefndaraðgerðir. Obama sagði Bandaríkjamenn ekki geta búið í samfélagi þar sem einhver einræðisherra út í heimi ritskoðaði grínmynd í Bandaríkjunum.

Og bað forsetinn menn að íhuga ef gefið yrði eftir vegna gagnrýni á grínmynd hvað þessir sömu aðilar muni gera vegna heimildarmynda og frétta sem þeim líkaði ekki við.Yfirmenn Sony segjast ekki hættir við að dreifa kvikmyndinni og fyrirtækið sé að leita nýrra eða annarra leiða til að koma henni fyrir sjónir almennings en með sýningum í kvikmyndahúsum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×