Innlent

Segir rektor fara með hálfsannleik um stöðu Háskóla Íslands

Jakob Bjarnar skrifar
Víst er að Einar Steingrímsson hefur skorið upp herör gegn hverskyns meðvirkni. Hvort það gagnast honum í komandi rektorskjöri á eftir að koma í ljós.
Víst er að Einar Steingrímsson hefur skorið upp herör gegn hverskyns meðvirkni. Hvort það gagnast honum í komandi rektorskjöri á eftir að koma í ljós.
Kristín Ingólfsdóttir, sem á næstunni lætur af starfi sem rektor Háskóla Íslands, var í viðtali við Morgunblaðið í dag þar sem meðal annars er sagt frá því að árið 2006 hafi verið sett fram langtímamarkmið fyrir Háskóla Íslands, háleitt markmið sem var að koma HÍ á lista yfir 100 bestu skóla í heiminum. „Önnur Norðurlönd áttu þar fyrir átta háskóla og ef Ísland ætlaði að auka samkeppnishæfni sína var ljóst að öflugt og viðurkennt háskólastarf þyrfti að vera í landinu,“ skrifar blaðamaður Morgunblaðsins og hefur þetta eftir Kristínu: „Háskólinn er kominn á lista yfir 300 háskóla sem hæst eru metnir. Við erum í harðri samkeppni við háskóla sem eru mun betur fjármagnaðir.“

Einar Steingrímsson prófessor segir þetta fráleitan málflutning. Í þarsíðustu viku var hann einmitt að fjalla um þetta sama á fundi prófessorafélagsins og sýndi þá fram á að skólinn er að meðaltali fyrir neðan 500. sæti á helstu listunum yfir þetta. „Lygin felst í því að velja einn lista, og nefna hina ekki,“ segir Einar.

HÍ varla meðal 500 bestu

„Það eru til að minnsta kosti fimm þekktir listar yfir bestu háskóla heims.  HÍ er í 250.-275. sæti á einum þeirra, lista Times Higher Education.  Hann er í sæti 516 á lista sem kallaður er QS, en kemur hvergi fyrir á eftirfarandi listum:

US News & World Report:  500 bestu, HÍ ekki með

Shanghai:   500 bestu, HÍ ekki með

QS:  800 bestu, HÍ ekki með

Ef við töluðum um þessa hluti eins og við leggjum hart að nemendum okkar að gera með tölfræðileg gögn, þá er niðurstaðan sú að HÍ nær ekki upp í 500. sæti að meðaltali á þekktum listum yfir bestu háskóla heims.  Villandi málflutningur af þessu tagi, þar sem valin eru gögn sem henta málstað manns, eru óboðleg fyrir forystu háskóla með sjálfsvirðingu.“

Er ekki í skrúðmælgikeppni

Einar er einn þriggja sem býður sig fram til að gegna stöðu rektors en kosningar eru nú eftir fáeina daga, eða 13. þessa mánaðar. Einar hefur komið nokkuð bratt í baráttuna og hleypt í hana lífi með hvassri gagnrýni á eitt og annað sem að Háskólanum snýr. Hann starfar í Skotlandi og kemur utan frá meðan aðrir frambjóðendur, Guðrún Nordal og Jón Atli Benediktsson, eru á „heimavelli“ ef svo má að orði komast, starfa innan skólans.

Nú eru Íslendingar yfirleitt ekkert mjög áhugasamir um gagnrýni á sig og sitt, hvernig hefur þér sýnst fólk taka þínu framboði?

„Ég á mjög erfitt með að meta hvað fólk í skólanum hugsar almennt um framboð mitt.  En mér finnst þó að það sé tekið æ meira „mark“ á því sem ég er að segja, það er að segja að æ fleiri séu hættir að afskrifa þetta sem bara einhvers konar próvókasjón til að þyrla upp ryki. Keppinautarnir, aðallega Jón Atli, sem er jú í æðstu forystu skólans, hafa líka neyðst til að mæta ýmissi gagnrýni minni, þótt þeir hefðu frekar kosið að heyja þetta eingöngu sem skrúðmælgikeppni. Og þegar jafnvel RÚV er farið að segja fréttir af því sem ég er að gagnrýna eins og það sé sjálfsagt þá breytir það svolítið tóninum í þessu, mér í hag, held ég.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×