Viðskipti innlent

Segir rekstur álversins þungan

Haraldur Guðmundsson skrifar
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi. MYND/GVA
Árið 2010 ákvað Rio Tinto Alcan, sem rekur álver ISAL í Straumsvík, að fjárfesta í stærstu innlendu einkaframkvæmdinni frá hruni. Kostnaður við verkefnið er nú kominn í 55 milljarða króna og það mun á endanum kosta álverið fimm milljarða til viðbótar.

Kostnaðurinn er á við samanlagðan hagnað álversins yfir tíu ára tímabil en álverið hefur einnig þurft að taka lán til að standa undir framkvæmdum. Framkvæmdirnar hafa nú þegar farið vel yfir 600 ársverk og þegar mest var voru um þúsund manns í hádegismat í mötuneyti álversins á hverjum degi.

Mikil vonbrigðiEinn stærsti hluti verkefnisins í Straumsvík, að ná fram straumhækkun með breytingum á straumleiðurum álversins, og þannig auka framleiðslugetu þess um tuttugu prósent, úr 190 þúsund tonnum í 230 þúsund, reyndist of flókinn í framkvæmd og í vor var tekin ákvörðun um að verja ekki meiri fjármunum í hann.

„Niðurstaðan var mikil vonbrigði fyrir okkur því við erum búin að leggja í alla fjárfestinguna en náum ekki þeirri framleiðsluaukningu sem gert var ráð fyrir. Við gerum miklar kröfur í öryggismálum og menn sáu enga leið til að gera þetta með öruggum hætti þrátt fyrir að við séum búin að reyna mikið til að láta þetta ganga. Við erum búin að kaupa verkfræðiþjónustu fyrir ellefu milljarða og fjárfesta í dýrum búnaði sem var sérsniðinn að álverinu, sem að stórum hluta liggur hér ónotaður úti á plani. Það gekk ekki að byggja nýtt álver á sínum tíma og ekki heldur að auka framleiðslugetuna um tuttugu prósent. Við erum því svolítið að reka okkur á veggi,“ segir Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi. Hún bendir á að þessi hluti fjárfestingarverkefnisins fól einnig í sér breytingar á lofthreinsibúnaði. Þær breytingar standa nú yfir og verður að hennar sögn lokið við þær. 

Þegar ljóst var að álverið næði ekki þeirri framleiðsluaukningu sem upphaflega var gert ráð fyrir, var hafist handa við að finna aðrar leiðir til að auka framleiðslugetu álversins. Athuganir sérfræðinga leiddu þá í ljós að hægt var að ná fram töluverðri straumhækkun, og þar af leiðandi aukinni framleiðslugetu, með breytingum á rafmagnsbúnaði álversins.

„Með breytingum á rafmagnsbúnaði náum við átta prósenta framleiðsluaukningu sem þýðir framleiðslugetu upp á 205 þúsund tonn. Við stefnum að verklokum í þeim hluta verkefnisins snemma á næsta ári en hér hafa einnig verið erlendir og innlendir sérfræðingar að vinna við að finna leiðir til að auka framleiðslugetu álversins umfram þessi átta prósent með frekari breytingum á rafmagnsbúnaði. En það er ljóst að sú vinna tekur nokkur ár,“ segir Rannveig.

Aðrar framkvæmdir gengið velÁkvörðunin um að hætta við breytingar á straumleiðurum álversins hafði að sögn Rannveigar engin áhrif á aðra meginþætti verkefnisins í Straumsvík. Framkvæmdum við breytingar á rafmagnsbúnaði í aðveitustöð er nú lokið og áfram verður unnið að breytingum á steypuskála svo álverið geti að fullu skipt yfir í framleiðslu á álstöngum í stað álbarra.

„Steypuskálabreytingarnar, sem við reiknum með að klárist á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, gerðu okkur kleift að hefja framleiðslu á nýrri framleiðsluvöru, álstöngum, sem eru verðmætari en álbarrarnir sem við höfum framleitt. Það sem er mjög jákvætt við þessar framkvæmdir allar er að við vorum með 100 prósent framleiðslu í virðisaukandi vörum á sama tíma og framkvæmdirnar áttu sér stað og erum nú að framleiða enn verðmætari vöru. Það er mikil framtíð í álstöngunum og þær munu stuðla að því að ÍSAL eigi langt líf fyrir höndum. Fyrsta sendingin af stöngum sem fór frá okkur fullnægði öllum kröfum viðskiptavina okkar og það er eftir því sem mér skilst mjög sjaldgæft þegar um er að ræða fyrstu sendingu. Þessi hluti verkefnisins hefur því gengið vel,“ segir Rannveig og bankar í borðið til öryggis.

Sérkennileg umræðaÁlverið í Straumsvík skilaði tapi á síðasta ári í fyrsta sinn í um tuttugu ár og stjórnendur þess hafa undanfarið þurft að fara í miklar aðhalds- og sparnaðaraðgerðir. Rannveig segir álverið hafa þurft að ganga lengra í þeim efnum en áður og nefnir í því samhengi uppsagnir á um tíunda hluta af mannafla álversins.

„Álverð er lágt og er búið að vera lágt í langan tíma. Á sama tíma eru þau aðföng sem við þurfum að kaupa dýrari en áður. Við kaupum súrál og rafskaut erlendis frá og bæði aðföngin hafa hækkað í verði. Hér heima er það svo raforkan en við erum að greiða meira fyrir hana en við höfum áður gert, meðal annars vegna þess að álverðstengingin er ekki lengur við lýði. Samkeppnisaðilar okkar eru flestir með álverðstengingu og því er þetta gríðarlegur baggi á okkur, sérstaklega þegar við náum ekki þeirri framleiðsluaukningu sem gert var ráð fyrir. Við búumst því við að róðurinn verði þungur, allavega næsta árið. Svo kemur vonandi betri tíð með blóm í haga og hærra álverð,“ segir Rannveig og bætir því við að í þessu samhengi megi ekki vanmeta vaxandi eftirspurn eftir áli í heiminum.

Rannveig segir umræðuna í samfélaginu oft vera á sérkennilegum nótum þegar kemur að álverum. Hún segir sorglegt hvernig lækkandi álverð virðist oft vera tilhlökkunarefni hjá ýmsum hópum. 

„Við Íslendingar mættum vera stoltari af þeirri staðreynd að við séum að framleiða þessa vöru. Í Þýskalandi eru menn að rifna úr stolti þegar Þjóðverjar framleiða nýjar lúxusbifreiðar eins og BMW, sem eru framleiddar úr áli úr Straumsvík.“

Milljón á dag í raforkuskattRannveig nefnir einnig raforkuskatt stjórnvalda sem íþyngjandi þátt í rekstri álversins. Skatturinn var lagður á í desember 2009 og samkvæmt samkomulagi sem álverin gerðu við stjórnvöld átti hann einungis að vera til þriggja ára. Í desember síðastliðnum ákvað síðan þáverandi ríkisstjórn að framlengja raforkuskattinn um þrjú ár til viðbótar. Álverið hefur að sögn Rannveigar greitt um eina milljón króna á dag í raforkuskatt.

„Við erum mjög skattpínd og það er sárt að sitja enn uppi með raforkuskattinn á tímum þegar fækka hefur þurft stöðugildum í Straumsvík. Við gátum borgað þennan skatt þegar álverð var hærra en nú er það mjög erfitt. Við vorum með samkomulag um orkuskattinn sem átti að vera til þriggja ára og en svo var hann framlengdur einhliða af stjórnvöldum,“ segir Rannveig.

„Persónulega finnst mér við vera búin að standa okkur vel í hruninu. Við erum búin að fjárfesta hér fyrir 55 milljarða á meðan aðrir höfðu ekki trú á þessu landi og höfum á undanförnum fimm árum borgað að meðaltali einn milljarð í tekjuskatt á ári. Því finnst mér að stjórnvöld eigi að standa við það sem samið var um, að þessi raforkuskattur yrði einungis til þriggja ára, sem nú eru liðin.“ 

Rannveig segir að lokum engan hjá Rio Tinto Alcan vefengja þá staðreynd að Alþingi hafi heimildir til skattlagningar. „En ef það á að byggja eitthvað hér á trausti og gagnkvæmri virðingu er þessi leið sem stjórnvöld fóru nú um áramót ekki rétta leiðin til þess.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×