Innlent

Segir ókosti við aðild fleiri þótt stórauka mætti útflutning á skyri

Íslenskir mjólkurframleiðendur gætu stóraukið útflutning á skyri til Evrópu með aðild að Evrópusambandinu en aftur á móti myndu þeir mæta harðri samkeppni þegar kemur að ostum, segir forstjóri MS. Hann segir ókostina við aðild fleiri en kostina.

Með aðild að Evrópusambandinu myndu tollar falla niður á innfluttar evrópskar landbúnaðarafurðir og samhliða því myndu tollar á íslenskar afurðir fluttar út til Evrópusambandsríkja falla niður. Þetta gæti skapað margvísleg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki.

Íslenskir mjólkurframleiðendur hafa heimildir til að flytja út 380 tonn af skyri á hverju ári. Það eru um milljón lítrar af mjólk sem fara í afurðirnar, eða um eitt prósent af landsframleiðslu. MS markaðssetur skyr.is í bæði Bandaríkjunum og Finnlandi en fyrirtækið fullnýtir kvótann á þessu ári með útflutningi til Finnlands.

Einar Sigurðsson, forstjóri MS, sagði við fréttastofu að gagnkvæm áhrif þess að afnema tollmúra myndu fela í sér tækifæri fyrir íslenska framleiðendur til að flytja meira út af skyri en gert er í dag.

Ef tollverndar nyti ekki við væri hægt að auka þennan útflutning verulega. Einar sagði að með aðild myndu íslenskir framleiðendur hins vegar mæta harðri samkeppni frá evrópskum framleiðendum á öðrum afurðum, eins og ostum, og talar hann um „samkeppni upp á líf og dauða" í því samhengi.

Einar sagði að hjá MS hefði þetta verið vegið og metið og ókostirnir sem fylgdu harðri samkeppni frá evrópskum framleiðendum væru fleiri en kostirnir sem fylgdu sóknartækifærum til útflutnings.

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, segir að íslenskir mjólkurframleiðendur eigi að geta aukið útflutning sinn á mjólkurafurðum með tvíhliða samningum eins og gert hafi verið til þessa. Einar Sigurðsson segir raunar að nú þegar hafi verið sótt um aukinn kvóta hjá Evrópusambandinu.

„Við munum áfram vilja eiga góð samskipti við Evrópusamandið og byggja þau upp á tvíhliða samningum eins og við höfum gert hingað til. Hvort sem það er í skyri, eða lambakjöti eða öðrum afurðum. Það eigum við að geta gert áfram, sem sjálfstæð þjóð," segir Haraldur Benediktsson. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×