Viðskipti innlent

Segir málsmeðferð Sorpu „stjórnsýslufúsk“

Svavar Hávarðsson skrifar
Dofri Hermannsson er framkvæmdastjóri Metanorku.
Dofri Hermannsson er framkvæmdastjóri Metanorku.
„Það er rangt. Við munum borga a.m.k. milljarði meira fyrir þessa lausn en við hefðum þurft að gera, samanborið við ef fyrst hefði verið auglýst eftir tillögum að lausnum og þær bestu svo boðnar út,“ segir Dofri Hermannsson, framkvæmdastjóri Metanorku, um skýringar Sorpu um að ný gas- og jarðgerðarstöð verði boðin út og fyrirtækið sé í fullum rétti um framkvæmd málsins.

Eins og Fréttablaðið greindi frá hafa Íslenska gámafélagið og Metanorka kært Sorpu til kærunefndar útboðsmála vegna samningsgerðar vegna stöðvarinnar.

Dofri segir málið allt stjórnsýslufúsk sem muni kosta borgarbúa miklu meira en það þyrfti að gera.

„Stjórnendur Sorpu virðast hafa fengið ást á þessari Aikan-lausn fyrir mörgum árum og ákveðið að ekki þyrfti að skoða málið betur. Aðalkostur Aikan mun vera að geta tekið óflokkað sorp. Þó er stefna sveitarfélaganna, sem eiga Sorpu, að treysta fólki til að flokka ruslið sitt. Metanorka hefur boðið Sorpu að skoða aðra lausn, því við höfum trú á að fólk geti og vilji flokka ruslið sitt sjálft í staðinn fyrir að borga um 40.000 krónum meira á hvert heimili fyrir lausn sem flokkar fyrir það.“

Dofri segir að eðlileg stjórnsýsla byggðasamlagsins hefði verið að skilgreina í upphafi þarfir höfuðborgarsvæðisins, auglýsa svo eftir tillögum að lausnum á EES-svæðinu, velja þær tillögur sem best þykja uppfylla fyrirframgefin skilyrði og óska loks eftir tilboðum í þá eða þær lausnir sem koma best út.


Tengdar fréttir

Kæra samningsgerð 2,7 milljarða stöðvar

Íslenska gámafélagið og Metanorka segja Sorpu brjóta lög um opinber innkaup í tengslum við samningsgerð vegna 2,7 milljarða sorpvinnslustöðvar – og hafa kært gjörninginn. Sorpa telur sig í fullum rétti og starfa samkvæmt gildandi lögum.

Segja útboð alltaf hafa staðið til

Sá hluti byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar fyrir höfuðborgarsvæðið sem ekki var boðinn út af SORPU er innan viðmiða í lögum samkvæmt forsvarsmönnum fyrirtækisins.

Vel innan við 20% ekki í útboð

Jarðvinna, byggingarvinna og tækjakaup vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu í Álfsnesi verða boðin út. Sá hluti sem ekki verður boðinn út felst í tæknilegri ráðgjöf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×