Viðskipti innlent

Segir lítið mark takandi á tölum um landsframleiðslu

"Lítið mark er takandi á árstíðarleiðréttum tölum um landsframleiðslu líkt og við höfum áður bent á. Þessar tölur breytast mikið eftir fyrstu birtingu Hagstofunnar og er Hagstofan t.d. nú að breyta tölum fyrir fyrsta og annan ársfjórðung þessa árs umtalsvert." 

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. "Þannig var mun meiri samdráttur á fyrsta ársfjórðungi en áður var talið eða 2,6% í stað 1,2% samdráttur samkvæmt fyrri tölum. Á móti var mun minni samdráttur á öðrum ársfjórðungi en áður var talið eða 0,3% í stað 3,1% samdrætti samkvæmt fyrri tölum."

Greiningin segir að Hagstofan undirstriki sérstaklega að þessu sinni hversu óáreiðanlegar þessar tölur eru og segir að á umbrotatímum eins og nú er óvissa við árstíðarleiðréttingar mikil og á það sérstaklega við um lítil hagkerfi eins og það íslenska.

"Engu að síður flagga þeir í samantekt að landsframleiðslan hafi aukist um 1,2% að raungildi á milli annars og þriðja ársfjórðungs í ár. Við teljum að rétt sé að taka þeim tölum með gát," segir í Morgunkorninu.

"Margir fóru flatt í túlkun á þessum tölum fyrir rétt hálfu ári síðan þegar þær sýndu hagvöxt á síðasta ársfjórðungi síðastliðins árs og fyrsta ársfjórðungi í ár en þær niðurstöður breyttust allt í einu í umtalsverðan samdrátt á milli mælinga."









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×