Erlent

Segir að Mugabe myndi sigra þótt hann væri dáinn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Robert Mugabe er þaulsetinn.
Robert Mugabe er þaulsetinn. Vísir/AFP
Grace Mugabe, eiginkona hins 92 ára gamla forseta í Simbabve, Roberts Mugabe, segir að hann myndi sigra í forsetakosningum jafnvel þótt hann væri dáinn.

„Dag nokkurn þegar Guð ákveður að Mugabe deyji, þá munum við setja líkið af honum á kjörseðilinn sem frambjóðanda,“ sagði hún á kosningafundi í höfuðborginni Harare, að því er breska útvarpið BBC segir.

„Þið munið sjá að fólk kýs Mugabe þótt hann sé lík. Ég er í alvöru að segja ykkur þetta, bara til að sýna hve heitt fólkið ann forseta sínum,“ sagði eiginkona hans, en hún er 51 árs.

Mugabe hefur verið forseti í Simbabve síðan 1980. Næstu forsetakosningar verða haldnar árið 2018.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×