Viðskipti erlent

Seðlabankinn afnam bindiskyldu erlendra útibúa í mars

Stjórn Seðlabanka Íslands tók þá ákvörðun 25. mars að gera slæmt ástand helmingi verra með því að afnema bindiskyldu erlendra útibúa íslensku bankanna.

Þetta er athyglisvert í ljósi orða Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra á fundi Viðskiptaráðs í gær um að á fundi mánuði fyrr, eða í febrúar í London, hafi forsvarsmönnum bankans orðið ljóst að ástandið var orðið svo slæmt að þeim hafi beinlínis verið brugðið.

Á vefsíðu Seðlabankans þann 25. mars segir: „Í nýjum reglum um bindiskyldu er gert ráð fyrir því að skuldbindingar erlendra útibúa íslenskra banka myndi ekki grunn bindingar. Breyt­ingin tekur gildi þegar reglulegri upplýsingasöfnun um efnahagsliði erlendra útibúa íslenskra fjármálafyrirtækja hefur verið komið á.

Tilgangur breytingarinnar er að samræma reglurnar þeim sem gilda hjá Evrópska Seðlabankanum svo sem verða má. Þótt tölur liggi ekki fyrir má ætla að breytingin létti talsvert á bindiskyldu þeirra banka sem starfrækja útibú erlendis."

Segja má að á grundvelli þessarar breytingar á bindiskyldunni hafi Landsbankinn getað stóraukið við Icesave-reikninga sína og stofnað til þeirra í fleiri löndum en Bretlandi. Nefna má að Icesave í Hollandi var komið á í maí eftir að fyrrgreind breyting tók gildi.

Með bindiskyldu er átt við að seðlabankar geta skyldað viðskiptabanka til að leggja ákveðið hlutfall af innlánum inn á reikning í seðlabankanum, þar með geta viðskiptabankarnir ekki lánað það fé út.

















Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×