Enski boltinn

Schweinsteiger ætlar ekki að fara: Ég verð klár ef kallið kemur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schweinsteiger var mikið frá vegna meiðsla á síðasta tímabili.
Schweinsteiger var mikið frá vegna meiðsla á síðasta tímabili. vísir/getty
Þótt José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, telji sig ekki hafa not fyrir Bastian Schweinsteiger ætlar Þjóðverjinn ekki að yfirgefa félagið.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Schweinsteiger sendi frá sér á Twitter.

„Man Utd verður síðasta félagið sem ég spila með í Evrópu. Ég ber virðingu fyrir öðrum félögum en Man Utd var eina félagið sem gat fengið mig til að yfirgefa Bayern München,“ skrifaði Schweinsteiger á Twitter í dag.

Mourinho hefur gefið það nokkuð skýrt til kynna að hann ætli ekki að nota Schweinsteiger og hefur látið hann æfa með varaliði United. Þrátt fyrir þetta segist Schweinsteiger vera klár ef kallið kemur.

„Ég verð tilbúinn ef liðið þarfnast mín. Meira get ég ekki sagt um stöðuna. Ég vil þakka aðdáendum Man Utd fyrir frábæran stuðning undanfarnar vikur,“ skrifaði Schweinsteiger ennfremur á Twitter.

Schweinsteiger, sem er 32 ára, lék aðeins 18 leiki með United í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili en hann var mikið frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×