Innlent

Sátt í sjónmáli við norsku barnaverndina

Andri Ólafsson skrifar
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, vildi ekki tjá sig um málið.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, vildi ekki tjá sig um málið. mynd/úr einkasafni
Ágætar líkur eru taldar á því að barnaverndaryfirvöld í Kristian­sand í Noregi fallist á tillögu Barnaverndarstofu um að íslenskur drengur sem Hæstiréttur Íslands úrskurðaði í gær að ætti að vera í forsjá norskra yfirvalda verði fóstraður hér á landi.

Samskipti þess efnis hafa nú átt sér stað í nokkurn tíma milli stofnana hér og í Noregi, en norsk barnaverndaryfirvöld vildu fá lokaniðurstöðu um forsjá drengsins áður en ákvörðun yrði tekin. Sú niðurstaða fékkst í gær þegar Hæstiréttur staðfesti dóm héraðsdóms um að barnaverndaryfirvöld í Kristiansand ættu að fara með forsjá drengins og að afhenda skyldi hann þeim yfirvöldum.

Aðkomu norskra yfirvalda að málinu má rekja til grunsemda um vanrækslu af hálfu móður drengsins. Eftir að móðirin var svipt forræði ákvað amma hans að fara með drenginn til Íslands í leyfisleysi. Pattstaða hefur verið í málinu síðan í sumar.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er málið á viðkvæmu stigi. Barnaverndarstofa hefur boðið norskum yfirvöldum aðstoð við að finna fósturforeldra hér á landi og hefur raunar hafið vinnu við það. Til greina kæmi að það yrði eitthvert af skyldmennum drengsins hér á landi sem tæki drenginn í fóstur. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru aðstandendur drengsins í bæði móður- og föðurætt sáttir við slíka tilhögun.

Allt veltur nú á norskum yfirvöldum sem geta í krafti niðurstöðu Hæstaréttar frá því gær krafist þess að drengurinn verði sendur til Noregs í fóstur þann 4. desember næstkomandi. Sem fyrr segir herma heimildir Fréttablaðsins úr stjórnkerfinu að ágætar líkur séu á að norsk yfirvöld fallist á þessa lausn. Áhersla sé þó lögð á það úr þeirri átt að faglegt ferli eigi sér stað við mat á hæfum fósturforeldrum og að velferð barnsins verði tryggð.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gærkvöldi fyrir utan það að samstarf væri í gangi um lausn sem væri drengnum fyrir bestu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×