Innlent

Sat saklaus í varðhaldi í fjórar vikur

Saklaus maður sat fjórar vikur í gæsluvarðhaldi fyrir meinta nauðgun. Honum var sleppt úr haldi á föstudaginn eftir að lífsýni sönnuðu sakleysi hans.

Það var á Kaffibarnum sem hin meinta nauðgun átti að hafa átt sér stað. Engin vitni voru að atburðinum en stuðst var við lífsýni og þau send til Svíþjóðar til rannsóknar. Nú er niðurstaðin komin í ljós og maðurinn er saklaus. Hann sat engu að síður fjórar vikur í gæsluvarðhaldi.

Maðurinn er erlendur ríkisborgari og var í heimsókn hér á landi. Hann var handtekinn þann 9. janúar. Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir manninum en þar kemur fram að vinkonur konunnar hafi komið að henni á klósetti skemmtistaðarins seint um nóttina. Sokkabuxur konunnar og nærbuxur hafi verið dregnar niðrum hana og hún rænulaus. Konan sjálf mundi ekkert af því sem gerðist og rankaði ekki við sér fyrr en á slysadeild. Við rannsókn málsins var stuðst við myndbandsupptökur og lífsýnin sem fundust í konunni.

Í úrskurðinum er sagt að brot mannsins varði allt að 16 ára fangelsi. Björgvin Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti að hinum grunaða manni hefði verið sleppt úr haldi. Rannsókninni væri þó ekki lokið.

Bjarni Hauksson, lögmaður mannsins, segir málið allt vekja furðu. Ekki séu vitni að atburðinum, konan muni ekkert eftir því sem gerist og maðurinn neiti sök. Engu að síður hafi hann setið saklaus í fjórar vikur í gæsluvarðhaldi. Hann íhugi nú næstu skref með sínum skjólstæðingi og útilokar ekki málsókn gegn ríkinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×