Erlent

Sannfærðir um dauða Mansour

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA/AFP
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að búið sé að staðfesta dauða Mullah Mohammed Akhtar Mansour, leiðtoga Talibana. Hann var felldur í drónaárás Bandaríkjanna í Pakistan um helgina. Mansour tók við völdum í fyrra, eftir að Talibanar höfðu falið dauða fyrrverandi leiðtoga samtakanna í um tvö ár.

Yfirvöld í Pakistan segja að árásin hafi brotið gegn fullveldi þeirra.

Obama ræddi Mansour í Víetnam þar sem hann er í heimsókn og sagði að hann hefði sérstaklega gert bandaríska hermenn og ráðgjafa að skotmörkum í Afganistan. Hann sagði árásina ekki marka aukna þátttöku Bandaríkjanna í átökum í Afganistan.

„Við erum ekki að fara að taka aftur þátt í daglegum bardögum með öryggissveitum Afganistan. Starf okkar er að hjálpa Afgönum að tryggja öryggi í Afganistan,“ er haft eftir Obama á vef AP fréttaveitunnar.

Forsetinn sagði að hins vegar hefði Mansour ítrekað skipulagt og framkvæmt árásir gegn Bandaríkjamönnum og að hann neitaði að taka þátt í öllum friðarviðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×