Skoðun

Samtök iðnaðarins og aflandskrónur

Lúðvík Júlíusson skrifar

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um að hleypa aflandskrónum inn í landið til að koma peningum í vinnu. Ég gagnrýni þessa hugmyndir og tel þær annað hvort mistök eða hreinlega byggja á vanþekkingu á peningamálum.

Að hleypa inn aflandskrónum er eins og að prenta peninga, þeir sem fá þá fyrstir græða en allur almenningur tapar! Auðvitað er Orri Hauksson ánægður með að vera í hópi þeirra sem græðir.... en viljið þið vera í hópi þeirra sem tapar enn einu sinni?

Það eru tvær leiðir til að stjórna peningamagni í umferð, annað hvort að stýra því beint eða með vöxtum. Ef peningamagni er stýrt beint þá ræður markaðurinn vöxtunum en ef peningamagni er stýrt með vöxtum þá ræður markaðurinn peningamagni. Síðari aðferðin er notuð hér á landi eins og í flest öllum vestrænum ríkjum.

Ef verðbólga er að aukast þá er dregið úr eftirspurn í hagkerfinu með því að hækka vexti og þar með draga saman peningamagn í umferð. Sé samdráttur í hagkerfinu og verðbólgan lág þá eru vextir lækkaðir til að auka peningamagn í umferð og eftirspurn.

Það er ljóst að engar krónur eru „atvinnulausar" hagkerfi þar sem peningamagn er breytilegt. Breytilegt peningamagn sér til þess að peningamagn vex þegar tækifæri eru fyrir hendi og dregst saman þegar tækifærum fækkar. Þeir peningar sem ekki finna sér vinnu miðað við stýrivexti eða markaðsvexti, sem ráðast af verðbólgu og hagsveiflum, fara í Seðlabankann.

Það er ljóst að peningamagn og eftirspurn hafa áhrif á gengi krónunnar. Ef peningamagn er aukið þá lækkar gengi krónunnar en ef peningamagn er minnkað þá styrkist gengi krónunnar. Við núverandi aðstæður í efnahagslífinu þá er ljóst að lægri vextir munu auka eftirspurn og peningamagn í hagkerfinu sem mun leiða af sér lægri krónu og verðbólgu.

Samtök iðnaðarins tala um aflandskrónur eins og þær hafi engin slæm áhrif á hagkerfið. Þær hafa auðvitað slæm áhrif á hagkerfið því annars væri ekki bannað að koma með þær til landsins. Samtök iðnaðarins vilja að leyft sé að nota þær í langtíma fjárfestingar. Í raun skiptir ekki máli í hvað þær eru notaðar. Þær auka eftirspurn en auka ekki verðmætasköpun á sama tíma sem mun leiða af sér lækkun krónunnar og hærri verðbólgu.

Ef aflandskrónur hefðu ekki slæm áhrif þá væri best ef allar útflutningsatvinnugreinar fengju að nota þær því þá myndi hagur þeirra allra batna, eftirspurn og fjárfestingar myndu aukast og atvinnuleysi minnka. Ef allir fengju að nota aflandskrónur þá væri heldur enginn ójöfnuður á milli fjárfesta! Þetta væri frábær lausn úr kreppunni ef þetta væri því miður ekki hrein og tær peningaprentun og hækkar þar af leiðandi verðbólgu, erlendar skuldir og dregur úr lífskjörum!

Það er ekki nóg með að aflandskrónurnar auka eftirspurn í hagkerfinu, heldur auka þær einnig eftirspurn eftir gjaldeyri! Ef Seðlabankinn freistast til að verja gengi krónunnar og kaupa krónur þá aukast erlendar skuldir og þar með verður skuldastaða Íslands verri án þess að nýjar gjaldeyristekjur hafi skapast. Það dregur augljóslega úr lífskjörum í landinu.

Til þess að koma í veg fyrir þessar slæmu afleiðingar aflandskrónanna þá þyrfti Seðlabankinn að hækka vexti og draga þar með úr umframeftirspurn. Nettó áhrif aflandskrónanna fyrir hagkerfið yrðu því engar! Í raun yrðu þær verri en engar vegna þess að vextir yrðu hærri, eignir hafa færst frá almenningi til þeirra sem fengu að nota aflandskrónur og fyrirtæki sem ekki fá að njóta ávinnings af aflandskrónum verða að draga úr umsvifum sínum vegna hærri vaxta.

Ekkert nýtt verður til verði aflandskrónum hleypt í landið eins og Samtök iðnaðarins sækjast eftir! Aflandskrónur skaða einungis hagkerfið og tefja fyrir langtíma atvinnuuppbyggingu og endurreisn landsins!





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×