Innlent

Samningafundi prófessora frestað í annað sinn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rúnar bindur enn vonir við að deilan leysist í tæka tíð fyrir verkfall.
Rúnar bindur enn vonir við að deilan leysist í tæka tíð fyrir verkfall. Vísir / GVA
Enn hefur ekkert þokast í viðræðum prófessora við ríkið og stefnir því í að verkfall hefjist í næstu viku. Vonir stóðu til að árangur næðist í viðræðunum í dag en samningafundi dagsins var frestað á síðustu stundu.

Þetta er annað skiptið sem fundinum er frestað en aðilar ætluðu að hittast síðastliðinn föstudag. Samninganefnd ríkisins frestaði einnig þeim fundi. Rúnar Vilhjálmsson, formaður félags prófessora, segist þó binda vonir við að deilan leysist áður en verkfall skellur á.

„Við áttum fund síðastliðinn föstudag en honum var frestað af hálfu viðsemjanda, sem voru okkur nokkur vonbrigði,“ segir hann. Fundinum var svo frestað aftur í morgun.

Rúnar segir að deiluaðilar hafi verið komnir að samkomulagi um helstu atriði. „Við vonum ennþá að það komi ekki til verkfalls í desember. Það er enn tími til stefnu til að ganga frá samningi,“ segir hann.

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kusu í atkvæðagreiðslu Félags prófessora við ríkisháskóla um boðun verkfalls samþykktu verkfallsaðgerðir. 80,6 prósent samþykktu verkfall. Ef til verkfalls kemur verður það í miðjum jólaprófum, þann 1.-15. desember, og nær til Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskólans.  


Tengdar fréttir

Prófessorar samþykktu verkfallsaðgerðir

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kusu í atkvæðagreiðslu Félags prófessora við ríkisháskóla um boðun verkfalls samþykktu verkfallsaðgerðir.

Verkfallið bitnar á öllum nemendum

Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir að afstýra verði strax boðuðu verkfalli prófessora við ríkisháskóla. Það sé hagur nemenda að kjör prófessora standist samanburð við kjör í öðrum háskólum. Menn hafi áhyggjur af stöðu skólanna.

Jólapróf háskólanemenda í tvísýnu vegna kjarabaráttu

Félag prófessora við ríkisháskóla undirbýr atkvæðagreiðslu til þess að taka ákvörðun um hvort boðað verði til verkfalls í byrjun desember. Þetta gæti þýtt að um helmingi jólaprófa við ríkisháskóla verði frestað.

Helmingur prófa fellur niður

Prófessor við Háskóla Íslands segir að próf í hans námskeiði muni fara fram. Formaður Félags prófessora segir reglurnar skýrar og ekki einstaka kennara að túlka þær og viðmið þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×