Innlent

Samkomulag um uppbyggingu Auðbrekku í höfn

Bjarki Ármannsson skrifar
Svona gætu íbúðir á svæðinu komið til með að líta út.
Svona gætu íbúðir á svæðinu komið til með að líta út. Mynd/ASK arkitektar
Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti á fundi sínum í dag rammasamkomulag við fasteignafélagið Lund um uppbyggingu hins svokallaða Auðbrekkusvæðis. ASK arkitektar urðu hlutskarpastir í hugmyndasamkepnni um svæðið, þar sem gert er ráð fyrir blandaðri byggð atvinnu- og íbúahúsnæðis.

Í rammasamkomulaginu sem samþykkt var í dag er lögð áhersla á byggingu lítilla íbúða sem hugsaðar eru sem fyrstu íbúðir mögulegra kaupenda. Kópavogsbær á kauprétt að 4,5 prósent húsnæðis í hverfinu til að geta ráðstafað í tenglsum við félagslegt íbúðakerfi bæjarins. Þar kemur einnig fram að reist verður hótel á svæðinu.

„Auðbrekkan er spennandi svæði og undirbúningur að breytingum á þessu hverfi hefur gengið hraðar og betur en ég þorði að vona,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, í tilkynningu. „Ég er mjög ánægður með að þverpólitískar tillögur í húsnæðismálum nái strax að komast í framkvæmd eins og raunin verður á Auðbrekkusvæðinu, auk þess sem ég fagna því að hverfið gangi í endurnýjun lífdaga, íbúum fjölgi og ásýnd hverfisins verði fallegri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×