Innlent

Sálfræðingur ekki sést í fangelsinu í um tvö ár

Sveinn Arnarsson skrifar
Fanginn afplánaði fimm ára dóm fyrir kynferðisbrot í Hrísey sumarið 2015.
Fanginn afplánaði fimm ára dóm fyrir kynferðisbrot í Hrísey sumarið 2015. vísir/pjetur
„Sálfræðingur hefur ekki komið inn í fangelsið á Akureyri síðan í byrjun árs 2015. Það er því ekki einu sinni hægt að óska eftir slíkri þjónustu því hún er hvergi sýnileg. Þetta er veruleikinn sem við höfum margoft bent á,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga.

Fangi sem fluttur var á sjúkrahús á laugardag eftir sjálfsvígstilraun í fangelsinu á Akureyri lést í gær.

Guðmundur Ingi Þóroddsson
Aðeins tveir sálfræðingar auk tveggja félagsráðgjafa eru við störf hjá Fangelsismálastofnun og eiga þeir að sinna öllum föngum sem sitja inni og öllum föngum á reynslulausn í opnum úrræðum. Í Danmörku er einn félagsráðgjafi á hverja 20 fanga og geðheilbrigðisþjónusta mun betri en hér.

„Afstaða hefur um árabil gert alvarlegar athugasemdir við stöðu sálfræði- og geðlæknaþjónustu í fangelsunum,“ segir í tilkynningu félagsins. Ráðherra er krafinn um úrbætur.

„Það er okkar mat að sálfræðingar stofnunarinnar þurfa að vinna í nánum tengslum við fanga og fangaverði en ekki í höfuðstöðvum fangelsismálastofnunar á Seltjarnarnesi, því þar gerast ekki hlutirnir.“

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, segir mikilvægt að gera bragarbót á stöðu fangelsismála.

„Eins og staðan er núna eru margir fangar fársjúkir. Við eigum að sjá sóma okkar í því að sinna fólki með þennan tvíþætta vanda, fíknivanda og geðsjúkdóma. Margir fangar í dag eiga frekar heima á sjúkrastofnunum en í fangelsi. Þetta þurfum við að laga.“

Guðmundur Gíslason, forstöðumaður fangelsisins á Akureyri, segir fangelsið ekki geta tryggt það að fangar svipti sig ekki lífi. Vistarverur þeirra á Akureyri eru allajafna búnar nútíma þægindum.

„Ef vilji er fyrir hendi geta fangar tekið eigið líf. Í klefum sínum eru þeir með sjónvörp, eigin fatnað, rúmföt og handklæði og hvaðeina,“ segir Guðmundur.

Andlátið í gær er nú til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×