Innlent

Sakar Símann um blekkingu

Birgir Rafn Þráinsson Svokallað Ljósnet Símans er ekki samanburðarhæft við okkar net, segir framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. Fréttablaðið/Stefán
Birgir Rafn Þráinsson Svokallað Ljósnet Símans er ekki samanburðarhæft við okkar net, segir framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. Fréttablaðið/Stefán

Birgir Rafn Þráinsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, gagnrýnir Símann fyrir framsetningu á svokölluðu Ljósneti sem sagt var frá í Fréttablaðinu í gær.

„Að kalla þetta Ljósnet er mjög villandi fyrir markaðinn og við erum búnir að gera athugasemd um framsetningu Símans til Neytendastofu,“ segir Birgir Rafn.

Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra Símans, að 60 til 70 prósent heimila á höfuðborgarsvæðinu muni geta tengst fyrirhuguðu Ljósneti Símans á næstu tveimur árum. Notast yrði við ljósleiðara 90 til 95 prósent af leiðinni til viðskiptavina og síðan við núverandi koparlagnir lokaáfangann.

„Það er verið að stilla þessu upp eins og Síminn sé að koma með ljósleiðara til heimila. Þetta brýtur algerlega í bága við ákvæði laga um að villa heimildir á vöru og þjónustu,“ segir Birgir sem kveður tæknina sem Síminn beiti vera uppfærslu á ADSL-tækninni í svokallað VDSL.

„Að dulbúa það sem ljósleiðaranet og stilla því upp sem samanburðarhæfu neti við net Gagnaveitunnar er bara rangt.“

Birgir segir vissulega hægt að ná meiri hraða yfir koparlínurnar.

„En engu síður er verið að nota koparlínur sem heimtaugar og þær eru flöskuhálsinn. Það er alveg sama þótt þú færir búnaðinn úr símstöðinni í götuskáp þá ertu áfram að nota koparheimtaugarnar. Þannig að það er ekki viðurkennt á alþjóða mælikvarða að þetta kallist ljósleiðaravæðing. Það er ekki hægt að vera með hraðbraut sem endar á malarvegi og segja að það sé hægt að keyra á tvö hundruð kílómetra hraða alla leið,“ segir Birgir.

Þá gagnrýnir Birgir forstjóra Símans fyrir fullyrðingu í Fréttablaðinu í gær um að ljósleiðaranet Gagnaveitunnar hafi kostað 12 milljarða króna og nái til tuttugu þúsund heimila.

„Það er hreinasta bull. Við erum búin að tengja um þrjátíu þúsund heimili og höfum kostað til þess um þremur milljörðum,“ segir Birgir sem einnig kveðst hafa miklar efasemdir um áætlanir Símans um að greiða 790 milljónir króna fyrir kerfi sem nái til 42 þúsund heimila.

„Þekkjandi kostnaðartölur okkar hef ég enga trú á að þessi tala sé rétt.“gar@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×