Innlent

Sakar Isavia um að hygla Icelandair

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, sakar rekstraraðila Keflavíkurflugvallar um að draga taum Icelandair í úthlutun á afgreiðslutímum. WOW gæti þurft að draga sig úr samkeppninni í Norður-Ameríkuflugi fái flugfélagið ekki afgreiðslutíma til jafns við Icelandair.

Forsaga málsins er sú að WOW Air kærði Isavia og Icelandair til Samkeppniseftirlitsins. WOW Air þótti á sig hallað þegar úthlutað var afgreiðslutímum snemma morguns og síðdegis á Keflavíkurflugvelli enda ætlaði flugfélagið í samkeppni við Icelandair í Norður-Ameríkuflugi. Fjöldi flugfarþega millilendir á Keflavíkurflugvelli á leið sinni til og frá Norður-Ameríku. Skúli Mogensen, forstjóri WOW Air, segir flugfélagið verða að fá tíma til að hægt sé að tengja flug milli Norður-Ameríku og Evrópu.

„Icelandair er með einokunarstöðu frá september og fram í maí á öllu flugi til og frá Norður-Ameríku til Íslands. Isavia hefur ekki viljað verða að ósk okkar og Samkeppniseftirlitsins í þessu máli sem er mjög sérkennileg staða því Isavia er ríkisfyrirtæki,“ segir Skúli.

Í úrskurði samkeppniseftirlitsins frá því 1. nóvember kemur skýrt fram að Isavia beri að úthluta afgreiðslutímum til WOW Air til jafns við Icelandair. Isavia áfrýjaði málinu og er ekki von á niðurstöðu í málinu fyrr en í lok janúar.

„Það er alveg ljóst að ef þetta mál tefst mikið lengur munum við ekki geta hafið flug til Norður-Ameríku eins og við höfum tilkynnt og okkar áætlanir gerðu ráð fyrir. Það yrði auðvitað mjög bagalegt fyrir allan almenning þar sem við munum bjóða upp á mun lægri fargjöld til Norður-Ameríku en hingað til hefur tíðkast,“ segir Skúli Mogensen.

Fulltrúar Isavia neita því að þeir gangi erinda Icelandair. Í áfrýjun Isavia kemur fram að sjálfstæður samræmingastjóri fari með úthlutun afgreiðslutíma og að hann sé með öllu óháður Isavia. Félagið hafi ekki valdheimildir til að afturkalla úthlutun afgreiðslutíma. Draga mun til tíðinda í málinu í byrjun næsta árs. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×