Innlent

Sakaður um að stinga sektargreiðslum í eigin vasa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Seyðisfirði.
Frá Seyðisfirði. Vísir/Einar Bragi/Anton
Lögreglumaðurinn við embætti lögreglunnar á Seyðisfirði, sem grunaður er um alvarlegt brot í starfi, er talinn hafa stungið sektargreiðslum í eigin vasa. Um er að ræða sektir sem erlendir ferðamenn greiddu í reiðufé.

Málið var tilkynnt til ríkissaksóknara í ágúst og var lögreglunni á Eskifirði í kjölfarið falið að rannsaka málið. Samkvæmt heimildum Vísis má reikna með því að rannsóknin geti tekið langan tíma. Skoða þarf upptökur á hljóð- og myndupptökubúnaði í lögreglubílunum, svokölluðum eyewitness búnaði, nokkra mánuði aftur í tímann.

Lögreglumenn úti á landi eru iðulega einir í bílum sínum en eyewitness búnaður á einmitt að auðvelda þeim að vera einir á vakt. Þá þarf lögreglan að reyna að hafa uppi á þeim erlendu ferðamönnum sem greiddu sektirnar og eru, eðli málsins samkvæmt, flestir farnir af landi brott.

Sú staða kemur endurtekið upp hjá lögreglumönnum úti á landi að erlendir ferðamenn eru stöðvaðir við of hraðan akstur. Margir hverjir hafa aðeins tök á að greiða sektina í reiðufé sem gerir lögreglumönnum erfitt fyrir. Í sumum umdæmum lögreglu er þeim tilmælum beint til lögreglumanna að taka ekki við sektargreiðslum í reiðufé. Hins vegar standa þeir frammi fyrir þeim möguleika að geta lokið málinu á staðnum og snúa sér að næsta verkefni í stað þess að eyða þeim mun meiri tíma í málið eða einfaldlega sleppa ökumönnunum.

Jónas Vilhelmsson, yfirlögregluþjónn á Eskifirði, vildi ekkert tjá sig um málið í samtali við Vísi í dag. Hann staðfesti þó í samtali við Vísi í gær að um innanhússbrot væri að ræða.

„Þetta snýst ekki um þriðja aðila, snýst ekki um fólkið sem við erum að þjóna beint en er samt ömurlegt,“ sagði Jónas.

Ekki liggur fyrir hvort lögreglumaðurinn gangist við brotunum sem hann er grunaður um þar sem hann hefur enn sem komið er ekki verið yfirheyrður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×