Erlent

Sagður bera út boðskap um hvernig beita eigi konur ofbeldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Julien Blanc er afar umdeildur.
Julien Blanc er afar umdeildur.
Julien Blanc er Bandaríkjamaður sem ferðast um heiminn og kallar sig „stefnumótaþjálfara“. Hann heldur námskeið og fyrirlestra þar sem hann veitir karlmönnum ráð um hvernig þeir geta náð sér í konu. Blanc er afar umdeildur vegna þeirra aðferða sem hann boðar að séu áhrifaríkar til þess en í stuttu máli byggjast þær á að beita konur kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi.

Blanc starfar á vegum fyrirtækis sem heitir Real Social Dynamics. Fyrirtækið er með fjölda „stefnumótaþjálfara“ á sínum snærum sem fara víða um og halda fyrirlestra og námskeið. Samkvæmt heimasíðu Real Social Dynamics er áætlað að halda námskeið hér á Íslandi næsta sumar og því spurning hvort að hinn umdeildi Blanc komi til landsins.

Blanc átti fyrir um tveimur vikum síðan að halda fyrirlestra og námskeið í Ástralíu. Hann ætlaði að vera í landinu þar til í desember en dvöl hans styttist í annan endann  vegna mikilla mótmæla og undirskriftasöfnunar gegn honum og boðskap hans. Innanríkisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, dró vegabréfsáritun Blanc til baka og sagði af því tilefni:

„Þessi maður var ekki að breiða út pólitískan boðskap, heldur var hann að kenna hvernig beita má konur ofbeldi og koma fram við þær af vanvirðingu. Það er ekki eitthvað sem við hér í þessu landi viljum hafa í hávegum.“

Settar hafa verið í gang undirskriftasafnanir í öðrum löndum gegn fyrirhuguðum námskeiðum og fyrirlestrum Blanc. Þar á meðal eru Kanada, Bretland og Japan.

Myndin sem Julien Blanc birti á Instagram og Twitter en hefur nú fjarlægt.
Gátlisti um hvernig á að halda í konu

Blanc hefur verið afar virkur á samfélagsmiðlum á borð við Twitter, Instagram og Youtube en Twitter-reikningur hans er nú lokaður auk þess sem myndband sem hann setti á Youtube um hvernig ætti að ná sér í konu í Tókýó hefur verið eytt.

Í því myndbandi sagði Blanc til dæmis: „Ef þú ert hvítur maður í Tókýó, þá máttu gera hvað sem þú vilt. Ég er labba bara þar um, gríp um höfuðið á einhverjum stelpum, [...] og ýtti þeim í klofið á mér.“

Á meðal þess sem Blanc birti svo á Twitter var mynd sem notuð var til að vinna gegn heimilisofbeldi. Myndina má sjá hér til hliðar en Blanc sagði að hún gæti allt eins verið gátlisti fyrir fylgjendur sína um hvernig halda mætti í konu. Lét hann því fylgja með „hashtaggið“ #Howtomakeherstay.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×