Innlent

Sættir tekist milli Þórarins og Arnþrúðar

Bjarki Ármannsson skrifar
Vísir greindi frá því í gær að Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, væri í meira lagi ósátt með greinaskrif Þórarins Þórarinssonar blaðamanns fyrir tímaritið MAN
Vísir greindi frá því í gær að Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, væri í meira lagi ósátt með greinaskrif Þórarins Þórarinssonar blaðamanns fyrir tímaritið MAN Vísir
„Við Arnþrúður ræddum þetta vítt og breitt og ég skil vel að hún sé orðin langþreytt á árásum á persónu sína og útvarpsstöðina en ég leit nú alls ekki á þessa grein sem slíkt. Heldur virðingarvott eins dyggasta aðdáanda Útvarps Sögu,“ segir Þórarinn Þórarinsson blaðamaður.

Greinin skrifuð af mikilli væntumþykju

Vísir greindi frá því í gær að Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu, væri í meira lagi ósátt með greinaskrif Þórarins fyrir tímaritið MAN en þar fjallar hann um helstu innhringjendur útvarpsstöðvarinnar.

Arnþrúður fór fram á það bréflega að Björk Eiðsdóttir, ritstjóri MAN, innkallaði öll eintök nýjasta tölublaðsins. Björk birti mynd af bréfinu á Facebook-síðu sinni.Mynd/Björk Eiðsdóttir
Svo öfugt fór greinin í Arnþrúði að hún fór fram á það bréflega að Björk Eiðsdóttir, ritstjóri MAN, innkallaði öll eintök þessa nýjasta tölublaðs tímaritsins. Þá gerði Arnþrúður athugasemd við það að Þórarinn hafði verið á launaskrá hjá Sögu um tíma, við skrif á vef útvarpsstöðvarinnar, á sama tíma og þessi grein var unnin fyrir MAN.

„Við sættumst ekki á greinina sem slíka en erum sammála að um að enn ríki milli okkar gagnkvæm væntumþykja,“ segir Þórarinn. Aðspurður segir hann þau ekki hafa fallist í faðma heldur ræddu þau málið saman í síma nú síðdegis.

Þórarinn gat ekki svarað fyrir málið í gær, því hann var rúmliggjandi í pest. Hann ítrekar að greinin hafi verið skrifuð af mikilli væntumþykju.

„Til þess að vekja athygli á skemmtilegasta útvarpsefni landsins á uppáhaldsstöðinni minni til margra ára,“ segir Þórarinn.

Þórarinn útskýrir málið enn frekar í færslu á Facebook-síðu sinni:

Lagðist aðeins í pest og missti meira eða minna af umræðum um það sem mér finnst enn stórgóð grein um Símatímann á Ú...

Posted by Þórarinn Þórarinsson on 12. janúar 2016
Nauðsynlegt gjallarhorn í samfélaginu 

Vísir greip aðeins ofan í grein Þórarins til að upplýsa lesendur um hvers kyns skrif hér um ræðir og dæmi nú hver fyrir sig: 

„Þetta fólk hefur rétt á sínum skoðunum og rödd þess á að fá að heyrast og Útvarp Saga tryggir það. Stöðina er ekki hægt að strika út sem gróðrarstíu fordóma og mannhaturs. Í raun sinnir hún mikilvægu samfélagslegu hlutverki með því að leyfa hrædda og reiða fólkinu að tappa af í Símatímanum fyrir hádegi alla virka daga. Þetta fólk myndi ganga endanlega af göflunum ef það hefði ekki þann öryggisventil sem Útvarp Saga er.“

Þá segir jafnframt í grein Þórarins:

„Þau líta á Útvarp Sögu sem útvörð málfrelsis og gjallarhorn í samfélagi sem vill undir merkjum manngæsku þagga öll sjónarmið sem eru „góða fólkinu“ ekki þóknanleg. Og víst er að málfrelsið dafnar á Sögu og er vissulega hömlulaust. Þar er allt látið flakka af slíkum tilfinningahita að Símatíminn er án efa skemmtilegasti og besti útvarpsþáttur landsins. Í Símatímum fá valdhafar og fjármálabraskarar á baukinn daglega og þessu liði er óskað út í hafsauga reglulega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×