Erlent

Sænskir blóðgjafar fá sms þegar blóð þeirra er notað

Atli Ísleifsson skrifar
Sænsk heilbrigðisyfirvöld hyggjast birta tölur á netinu um nákvæma birgðastöðu blóðs í blóðbönkum til að koma í veg fyrir blóðskort.
Sænsk heilbrigðisyfirvöld hyggjast birta tölur á netinu um nákvæma birgðastöðu blóðs í blóðbönkum til að koma í veg fyrir blóðskort. Vísir/AFP
Blóðgjafar í Svíþjóð fá sjálfvirkt sms frá heilbrigðisstofnunum þar sem þeim er þakkað fyrir þegar þeir gefa blóð. Sömuleiðis fá þeir sms þegar blóð þeirra er notað til aðstoðar sjúklingum.

Ákveðið var að hefja sms-sendingar til blóðgjafa í tilraun til að efla umræðu og vitund Svía um blóðgjöf, en víða hefur borið á blóðskorti á sænskum sjúkrahúsum undanfarin misseri.

„Við erum sífellt að reyna að þróa nýjar leiðir til að sýna fram á mikilvægi bjóðgjafa,“ segir Karolina Blom Wiberg, upplýsingafulltrúi blóðbankans í Stokkhólmi, í samtali við Independent.

Verkefnið hófst fyrir þremur árum síðan í Stokkhólmi og hefur nú verið tekið upp á landsvísu, enda hafa blóðgjafar almennt lýst yfir mikilli ánægju með að fá skilaboð þegar blóð þeirra er notað.

Sömuleiðis hyggjast sænsk heilbrigðisyfirvöld nú birta tölur á netinu um nákvæma birgðastöðu blóðs í blóðbönkum til að koma í veg fyrir blóðskort.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×