Innlent

Sækja Þjóðverja sem eru fastir í á

Björgunarsveitamenn úr fimm björgunarsveitum frá Skagafirði og Húnavatnssýslu eru nú á leið á Kjöl til aðstoðar þýsku ferðafólki sem situr fast í tveimur bílum sínum í sandbleytu í á. Fólkið hugðist aka slóða frá Kjalvegi yfir í Ingólfsskála en lenti í ógöngum á leiðinni. Ekki er vitað um nákvæma staðsetningu hópsins og þurfa björgunarsveitir því að byrja á því að leita þess á svæðinu.

Sendir voru sex bílar frá björgunarsveitunum þar sem ferðafólkið er á trukkum, vegur annar þeirra 7,5 tonn og hinn 4,5 tonn. Freista á þess að nota alla björgunarsveitabílana í einu til að spila upp þessa þungu trukka. Takist það ekki verður fólkinu bjargað og það flutt til byggða.

Veður er gott á svæðinu og ekkert amar að ferðafólkinu sem er í símasambandi við björgunarsveitir. Segist það geta beðið í bílunum til morguns. Ekki þykir þó ráðlegt að bíða svo lengi þar sem ár geta grafið undan bílum sem sitja fastir.

Um 25 björgunarsveitamenn taka þátt í aðgerðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×