Erlent

Sækja af fullum krafti að Mosul

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá nágrenni Mosul.
Frá nágrenni Mosul. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Írak og bandamenn þeirra hófu árásina á borgina Mosul í nótt. Markmiðið er að reka vígamenn Íslamska ríkisins frá helsta vígi þeirra í landinu og koma fjölmargar fylkingar að árásinni. Undirbúningur hennar hefur tekið marga mánuði.

Talið er að í borginni muni um 30 þúsund hermenn, Peshmerga og aðrar vopnaðar sveitir hliðhollar Bagdad, muni kljást við um fjögur til átta þúsund vígamenn. Um ein og hálf milljón borgara búa í Mosul.

Bandaríkin, Frakkland og Bretland munu styðja aðgerðirnar með loftárásum og upplýsingum.

Sérfræðingar búast við því að sóknin muni taka vikur eða mánuði. Aðgerðirnar eru einhverjar þær umfangsmestu í Írak frá innrásinni 2003. Mosul hefur verið í haldi ISIS frá árinu 2014 þegar samtökin lögðu undir sig stóra hluta Írak og Sýrlands.

Útskýringarmyndband AFP um mikilvægi Mosul og aðgerðirnar þar.

Abu Bakr al-Baghdadi tilkynnti stofnun Kalífadæmis ISIS í Mosul 2014. Þegar borgin fellur, verður borgin Raqqa í Sýrlandi eina borgin sem ISIS heldur enn.

Vígamenn ISIS hafa verið á undanhaldi í Írak frá því í fyrra. Peshmergasveitir Kúrda hafa gengið hart fram gegn þeim í norðurhluta landsins. Þá hafa hermenn stjórnarhersins, sveitir frá Íran og aðrar vopnaðar sveitir bæði sjíta og súnníta herjað á samtökin annarsstaðar í Írak.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak heitir því að einungis stjórnarhermenn muni sækja inn í borgina sjálfa, þar sem súnnítar eru í miklum meirihluta. Greinendur telja það vera gert til að koma í veg fyrir ofbeldi milli súnníta og sjíta í borginni.

Yfirlit yfir aðgerðinar í Mosul.Vísir/GraphicNews
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur farið fram á að her Tyrklands fái einnig að koma að frelsun Mosul. Hann segir það ekki koma til greina að Tyrkir muni sitja á hliðarlínunni.

Tyrkir hafa verið á móti aðkomu Kúrda og sveita frá Íran að aðgerðunum. Þeir eru með hermenn í Írak, norður af Mosul og hafa yfirvöld í Bagdad farið fram á að Tyrkir yfirgefið landið.

Erdogan hefur neitað því og segir hermenn sína vera í Írak til að þjálfa vopnaðar sveitir súnníta á svæðinu fyrir baráttuna gegn ISIS.

„Enginn ætti að búast við því að við munum yfirgefa Bashiqa. Við erum þarna og höfum farið í margs konar aðgerðir gegn ISIS,“ sagði Erdogan. Tyrkir hafa ákveðið að senda samninganefnd til Bagdad.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×