Samtök atvinnulífsins ítreka kröfur sínar um litlar launahækkanir fyrir komandi kjaraviðræður. Miklar launahækkanir leiði til aukinnar verðbólgu og vaxtahækkana.
Þetta kemur fram í frétt SA á vef sínum í dag en ástæðan fyrir verðbólgu í landinu ku vera of miklar launahækkanir að mati Samtaka atvinnulífsins.
Fram kemur í fréttinni að áratugum saman hefur verðbólga verið miklu meiri og sveiflukenndari hér á landi en í viðskiptalöndum okkar, að undanteknum fáeinum árum á fyrri hluta tíunda áratugarins.
Verðskyn hafi brenglast og aðhald að verðlagi og samkeppni minnkar. Mikil og óstöðug verðbólga valdi í framhaldinu háum vöxtum.
Forystumenn alþýðusambands Íslands og fulltrúar Samtaka atvinnulífsins komu saman til fundar hjá ríkissáttasemjara í gær vegna komandi kjaraviðræðna.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að viðræður kunni að taka töluverðan tíma.
„Það er alveg ljóst að það ber töluvert á milli aðila svona í fyrstu yfirferð,“ sagði Þorsteinn.
„Það má alveg gera ráð fyrir því að það eigi eftir að taka töluverðan tíma að koma þessu saman.“
Stefnt er að 10-12 mánaða samningi í kjaraviðræðum.
Fram kemur meðal annars í frétt Samtaka atvinnulífsins á vefsíðu þeirra;
„Þjóðin er skuldsett og þarf að greiða stóran hluta tekna sinna í afborganir og vexti af erlendum skuldum. Undirliggjandi viðskiptajöfnuður nægir ekki til þess að standa í skilum með þessar greiðslur. Haldi launakostnaður á framleidda einingu áfram að hækka umfram það sem gerist í viðskiptalöndunum, gerist hið óumflýjanlega, að gengi krónunnar lætur undan og landsmenn fá yfir sig enn eina verðbólgugusuna“.
„Ísland er í alþjóðlegri samkeppni og íslensk fyrirtæki verða að vera samkeppnisfær við keppinauta sína á erlendum og innlendum markaði. Annars bresta undirstöður lífskjaranna. Ef laun hækka meira á Íslandi en í viðskiptalöndunum versnar samkeppnisstaða þjóðarinnar“.
„Í markmiði um 2,5% verðbólgu á ári felst að launahækkanir umfram það þurfi að mæta með framleiðniaukningu“.
„Á hverju einasta ári á tímabilinu 1995-2007 jókst launakostnaður á framleidda einingu á Íslandi langt umfram það sem gerðist í viðskiptalöndunum. Árið 2007 hafði launakostnaður á Íslandi aukist um 68% umfram viðskiptalöndin frá árinu 1994 en gengið var 2% veikara árið 2007 en 1994“.
„Þessi þróun leiddi til mikils viðskiptahalla stærstan hluta þessa tímabils. Viðskiptahallinn var fjármagnaður með miklu innstreymi erlends fjármagns, meðal annars með svonefndum vaxtamunarviðskiptum á síðustu árum þenslunnar. Því féll gengi krónunnar ekki fyrr en raun bar vitni“.
„Kjarasamningarnir 2011 fólu í sér miklar almennar launahækkanir og tvöfalt meiri sérstakar hækkanir kauptaxta. Auk þess fólust í þeim ýmis konar sérstakar hækkanir til tiltekinna hópa launafólks. Þetta var uppskrift að launaskriði“.
„Ekki verður dregin önnur ályktun af þróuninni eftir efnahagshrunið að Íslendingar séu á sömu vegferð og áður. Laun hækka á hverju ári langt umfram það sem gerist í viðskiptalöndunum, þar sem þau hækka um 2% árlega“.
SA ítrekar að launahækkanir leiði til verðbólgu
Stefán Árni Pálsson skrifar
