Innlent

SA er á móti samþykkt búvörusamninganna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
SA vill meðal annars að opinber verðlagning á mjólkurvörum verði aflögð.
SA vill meðal annars að opinber verðlagning á mjólkurvörum verði aflögð. vísir/pjetur
Samtök atvinnulífsins (SA) leggjast eindregið gegn samþykki nýgerðra búvörusamninga í óbreyttri mynd. Þetta kemur fram í umsögn SA um samningana sem birt var í gær.

„Samtök atvinnulífsins fagna því að í nýundirrituðum búvörusamningum er að finna ákvæði sem horfa í átt til aukinnar fjölbreytni í stuðningi hins opinbera við bændur […] Þau skref sem ríkið stígur með samningum til að stuðla að framþróun og aukinni samkeppni í landbúnaði eru hins vegar bæði óljós og engan veginn nægileg í ljósi þess að samningarnir gilda til næstu tíu ára,“ segir í umsögninni.

Ein af aðfinnslum SA snýr að því að samkvæmt samningunum yrði Mjólkursamsalan áfram undanþegin samkeppnislögum og vilja SA sömuleiðis að opinber verðlagning á mjólkurvörum verði aflögð á samningstímanum. Þar að auki mótmæla SA því að magntollar á mjólkurduft, undanrennuduft og osta verði hækkaðir.

Önnur aðfinnsla snýr að tollum á svína- og alifuglakjöt sem SA vilja lækka. „Sú vernd styður ekkert við stefnu stjórnvalda um styrkingu byggðar í dreifbýli. Verndarstefna gagnvart hvítu kjöti heldur hins vegar uppi hærra matvælaverði en þyrfti að vera og er á kostnað neytenda sem búa við lakari lífskjör en ella,“ segir í umsögninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×