Erlent

Rússar vonast til betra sambands við Bandaríkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/AFP
Talsmaður rússneska þingsins segist vonast til betra sambands Rússlands og Bandaríkjanna með forsetatíð Donald TrumpVyacheslav Volodin segir að ekki sé hægt að kalla núverandi samband ríkjanna vinalegt og vonast hann eftir uppbyggilegri samræðum þar á milli.

Vladimir Putin, forseti Rússlands, sendi Trump skeyti þar sem hann óskaði honum til hamingju með sigurinn.

„Rússneska þingið mun taka vel á móti og styðja öll skref í þá átt,“ segir Volodin við Tass fréttaveituna sem er í eigu rússneska ríkisins.

Samkvæmt Interfax brutust út fagnaðarlæti á þinginu þegar sigur Trump var tilkynntur.

Sergei Mironov, leiðtogi flokksins Sanngjarns Rússlands segir að „nýtt líf muni hefjast“ með embættistöku Trump. Rússar hafi ávallt átt auðveldara með samskipti við repúblikana en demókrata. Þá sé ljóst að Trump sé ekki illa við Putin.

Leiðtogi kommúnistaflokks Rússlands segir að kosningarnar hafi sýnt fram á miklar deilur í Bandaríkjunum og að ráðandi fylkingar eigi í miklum vandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×