Viðskipti innlent

Rússar skulda íslenskum fiskútflytjendum milljarða króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Samkvæmt nýlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg keyptu Rússar uppsjávarfisk héðan fyrir tæpa sextán milljarða króna á síðasta ári.
Samkvæmt nýlegri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg keyptu Rússar uppsjávarfisk héðan fyrir tæpa sextán milljarða króna á síðasta ári. Vísir
Rússnesk fyrirtæki skulda íslenskum fiskútflytjendum á bilinu þrjá til fimm milljarða króna fyrir uppsjávarfisk sem þau hafa þegar fengið afhentan.

Þetta segir Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóri sölufyrirtækisins Iceland Pelagic, stærsta útflytjanda landsins á uppsjávartegundum til Rússlands.

„Það eru nokkrir milljarðar útistandandi og það er mjög erfitt hjá rússnesku kaupendunum og að auki vita þeir ekki hvert rúbluverðið verður þegar þeir fá fisk sem við myndum hugsanlega selja þeim,“ segir Hermann.

@kvót fréttasíður nafnogtitill:Hermann Stefánsson
Fréttablaðið greindi í gær frá því að fiskútflytjendur hér hafi stöðvað útflutning til Rússlands í kjölfar falls rúblunnar. Þá kom einnig fram að óvíst er hvenær fyrirtæki á borð við HB Granda fá greitt fyrir uppsjávarfisk sem hefur þegar verið sendur til rússneskra kaupenda. 

Samkvæmt heimildum blaðsins skoða nokkrir fiskútflytjendur nú að gefa afslátt af skuldum og þá jafnvel allt að því sem nemur gengisfalli rúblunnar frá söludegi. Gengi gjaldmiðilsins gagnvart Bandaríkjadal hefur fallið um helming á árinu en Rússar greiða fyrirtækjum hér í flestum tilvikum með dölum. 

„Stærsti hlutinn af þessum viðskiptum stóru útflytjendanna hér við Rússana hefur verið í opnum reikningi. En nú halda menn auðvitað að sér höndum eftir að það fór að herða svona hrikalega að þarna,“ segir Hermann.

Rússland er mikilvægasti markaður Iceland Pelagic en fyrirtækið er í eigu útgerðarfélaganna Skinneyjar Þinganess og Ísfélags Vestmannaeyja. 

„Við héldum áfram að selja til Rússlands í haust eftir að ástandið þar fór að versna því það tekur langan tíma að finna nýja markaði og við höfum engar frystigeymslu hér til að geyma fiskinn og því þurftum við annað hvort að hætta að framleiða eða selja á Rússland.“

Hermann hélt erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember síðastliðnum. Þar kom fram að nærri helmingur alls makríls sem veiðist hér við land er seldur til Rússlands, um 20 prósent af allri síld og helmingur frystrar loðnu.

„Ef það verður svipuð staða í Rússlandi þegar loðnuvertíðin hefst í janúar þá mun megnið af því leita í fiskimjöl eða lýsi. Það vill þó til að það er mjög hátt verð á mjöl og lýsi núna, það er ekki slæmur kostur. Hins vegar er mikil eftirspurn eftir loðnu í Rússlandi en það er hæpið að verðið verði samkeppnishæft við mjöl og lýsi ef staðan verður svona,“ segir Hermann. 

Hann telur að lítið sé eftir af makríl- og síldarbirgðum hér á landi.

„Það eru engir frystiklefar á Íslandi af viti til að taka við neinni vöru til að geyma og selja þegar ástandið batnar í Rússlandi. Ef þetta heldur áfram svona þá verður ekki til neitt frystipláss fyrir loðnuna og þá verður annaðhvort að skipa henni til Rússlands eða bræða hana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×