Erlent

Rússar endurnýja kjarnorkuvopnabúr sitt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Stjórnvöld Rússlands hafa ákveðið að nútímavæða herafla sinn og að þróa og framleiða 50 nýjar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn um allan heim. Yfirmaður herafla Rússlands segir að öflug kjarnorkuvopn muni tryggja hernaðaryfirburði Rússlands yfir vesturvöldunum. Ætlað er að ljúka vinnunni árið 2020 og að hún muni kosta um 36 billjónir króna. (36.000.000.000.000 krónur)

Nýju eldflaugarnar verða teknar í notkun á þessu ári.

Þessi kostnaður mun ekki breyta fjárútlátum ríkisins til hernaðarmála á tímabilinu, þrátt fyrir að Rússland gangi nú í gegnum efnahagskreppu og búið sé að skera niður hjá öllum öðrum ráðuneytum. Þetta kemur fram á vef Reuters fréttaveitunnar.

Úkraínudeilan hefur ollið miklum vandræðum í tengslum Rússlands við Evrópu og Bandaríkin, sem hafa beitt Rússlandi viðskiptaþvingunum. NATO hefur sakað Rússa um að standa við bakið á aðskilnaðarsinnum í Úkraínu og segja rússneska hermenn berjast í Úkraínu.

Rússland hefur gagnrýnt NATO fyrir að hafa og ætla að hleypa löndum í Austur-Evrópu í bandalagið. Þá hefur Vladimir Putin, forseti Rússlands, sakað úkraínska herinn um að vera strengjabrúða NATO. Herinn berst nú við aðskilnaðarsinna sem hliðhollir eru Rússlandi. Putin segir markmið NATO vera að „halda aftur af“ Rússlandi.

Hershöfðinginn Valery Gerasimov sagði Rússar þurfa að bregðast við nýjum ógnunum vesturveldanna.


Tengdar fréttir

Rússland í ruslflokk

Standard & Poor´s hefur fært lánshæfismat Rússlands niður í ruslflokk í fyrsta sinn í áratug. S&P gaf Rússlandi lánshæfismatseinkunnina BB+ og er Rússland þá komið niður í sama flokk og Indónesía og Búlgaría.

Pútín fór fyrr af G20 fundinum

„Ég þarf fjögurra tíma svefn áður en ég mæti aftur til vinnu í Moskvu,“ sagði Rússlandsforesti um ástæður þess að hann yfirgæfi fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×