Erlent

Rússar beita neitunarvaldi gegn því að sérstökum MH17-dómstól verði komið á

Atli Ísleifsson skrifar
Atkvæðagreiðsla í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í dag.
Atkvæðagreiðsla í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í dag. Vísir/AFP
Rússlandsstjórn hefur beitt neitunarvaldi gegn tillögu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um að koma á alþjóðlegum dómstól til að draga þá sem grunaðir eru um að hafa skotið MH17 niður síðasta sumar til ábyrgðar.

Ellefu af þeim fimmtán ríkjum sem sæti eiga í öryggisráðinu greiddu atkvæði með tillögu malasískra, ástralskra, hollenskra, úkraínskra og belgískra stjórnvalda. Kína, Angóla og Venesúela sátu hjá þegar greitt var atkvæði.

Til að tillaga nái fram að ganga í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þurfa að minnsta kosti níu ríki að greiða atkvæði með tillögunni, auk þess að ekkert fastaríkjanna fimm má greiða atkvæði gegn henni. Rússar, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Frakkar og Bretar eiga fast sæti í ráðinu.

298 fórust

MH17, vél malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines, var skotin niður í austurhluta Úkraínu í júlí 2014 og fórust allir 298 um borð. Um tveir þriðju farþeganna voru Hollendingar.

Julie Bishop, utanríkisráðherra Ástralíu, segir að þeir ábyrgu haldi mögulega að þeir geti falið sig á bakvið neitunarvald Rússa, en þeir muni ekki komast upp með árásina. 39 farþeganna voru Ástralir.

Leita annarra leiða

Í frétt Reuters kemur fram að Bishop segi að Ástralía, Holland, Malasía, Belgía og Úkraína munu nú leita annarra leiða til að tryggja það að árásarmennirnir verði dregnir til ábyrgðar.

Úkraínumenn og Vesturveldin saka aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu, sem eru á bandi Rússlandsstjórnar, um árásina og að þeir hafi notast við rússneskar eldflaugar. Rússlandsstjórn hafnar þessu.

Samantha Power, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, segir að ákvörðun Rússa að beita neitunarvaldi muni ekki koma í veg fyrir rannsakað og að þeir ábyrgu sæti ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×