Handbolti

Rúnar kominn með starf í sterkustu deild heims

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar stýrði Aue í fjögur ár.
Rúnar stýrði Aue í fjögur ár.
Ísland hefur eignast nýjan þjálfara í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta en Rúnar Sigtryggsson verður næsti þjálfari HBW Balingen-Weilstetten. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Rúnar lætur því af störfum hjá B-deildarliðinu EHV Aue sem hann hefur þjálfað frá árinu 2012.

Rúnar skrifaði undir nýjan samning tveggja ára samning við Aue fyrr á árinu en hann fékk sig lausan frá félaginu að því er fram kemur á heimasíðu Aue.

Balingen endaði í 14. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, fimm stigum frá fallsæti.

Rúnar, sem er 44 ára gamall, var öflugur leikmaður á sínum tíma. Hann lék með Þór, Val, Víkingi og Haukum hér á landi, Ciudad Real á Spáni og þýsku liðunum Göppingen, Wallau/Massenheim og Eisenach sem hann þjálfaði einnig. Þá lék Rúnar 118 A-landsleiki fyrir Ísland.

Aue endaði í 7. sæti þýsku B-deildarinnar á síðasta tímabili. Með liðinu leika Íslendingarnir Bjarki Már Gunnarsson, Sigtryggur Daði Rúnarsson (sonur Rúnars), Árni Þór Sigtryggsson (bróðir Rúnars) og Sveinbjörn Pétursson sem er á förum til Stjörnunnar.

Ísland á nú þrjá þjálfara í þýsku úrvalsdeildinni en auk Rúnars eru þeir Alfreð Gíslason (Kiel) og Erlingur Richardsson (Füchse Berlin) starfandi þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×