Golf

Rory McIlroy slasaði sig í fótbolta með félögunum

Kári Örn Hinriksson skrifar
Það verður að teljast ólíklegt að McIlroy verði með á St. Andrews.
Það verður að teljast ólíklegt að McIlroy verði með á St. Andrews. Getty
Rory McIlroy, besti kylfingur heims, mun ekki spila keppnisgolf í náinni framtíð en Norður-Írinn ungi sleit liðbönd á laugardaginn í fótbolta með félögum sínum.

McIlroy setti inn mynd af sjálfum sér á samfélagsmiðla í morgun þar sem hann er á hækjum og í gifsi á vinstri fæti.

"Ég sleit liðböndin á mér á vinstri ökkla mjög illa í fótboltaleik um helgina," skrifaði McIlroy á Facebook.

"Við erum enn að skoða hversu alvarleg þessi meiðsli eru og ég er strax byrjaður í endurhæfingu, ég mun reyna að snúa til baka á golfvöllinn eins fljótt og ég get."

Það er óhætt að segja að meiðsli McIlroy komi á versta tíma en þriðja risamót ársins, Opna breska meistarmótið, hefst eftir tíu daga og því þykir mjög ólíklegt að hann taki þátt þar.

Verði McIlroy frá í langan tíma verður að þykja líklegt að Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth slái hann af toppi heimslistans í golfi en hann hefur sigrað á báðum risamótum ársins hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×