Enski boltinn

Rodgers svarar Carragher: Karakterinn í liðinu er óumdeildur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers var yfirmaður Jamie Carraghers áður en miðvörðurinn fór í sjónvarpið.
Brendan Rodgers var yfirmaður Jamie Carraghers áður en miðvörðurinn fór í sjónvarpið. vísir/gety
Liverpool heimsækir búlgarska liðið Ludogorets í Meistaradeildinni í kvöld og í gær sat Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri liðsins, fyrir svörum á blaðamannafundi.

Þar var hann spurður út í orð Jamie Carraghers, fyrrverandi miðvarðar Liverpool, sem nú starfar sem sérfræðingur Sky Sports.

Carragher hafði fátt fallegt að segja um sína gömlu félaga eftir 3-1 tap gegn Crystal Palace á sunnudaginn. Hann sagði liðið skorta alla karlmennsku og karakter.

„Við heyrum gagnrýnina en það er karakter í þessu liði. Það sýndum við á síðustu leiktíð. Vissulega fáum við fleiri mörk á okkur en við viljum, en það er ekki hægt að efast um karakterinn í þessu liði. Hann er óumdeildur,“ sagði Rodgers um gagnrýnina.

„Við erum með leikmenn sem sýna mikinn vilja, en þegar liðið er ekki að vinna hefur það áhrif á sjálfstraustið og þá spilar maður ekki jafn vel. Mitt starf er að blása sjálfstrausti í liðið.“

Carragher sagði eftir leikinn á sunnudaginn að Palace-liðið hefði látið kúga sig inn á vellinum og einfaldlega verið undir í baráttunni.

„Þetta er eitthvað sem var sagt. Þetta gerist þegar menn fá borgað fyrir að gagnrýna. Kannski ekki gagnrýna, en allavega meta liðið. Þegar maður tapar leikjum hef ég tekið eftir því að menn segja það sem þeir vilja og þá gerist þetta,“ sagði Rodgers.

„Hvort sem maður á gagnrýnina skilið eða ekki verður maður bara að hunsa hana. Ég er með fullt lið af karakterum, leikmönnum sem vilja gera vel og vonandi bætir það liðið. Við verðum bara að sýna að við getum náð góðum úrslitum og það er það sem við munum gera.“


Tengdar fréttir

Carragher: Engir karlmenn og engir leiðtogar í Liverpool-liðinu

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool-liðsins gagnrýndi liðið harðlega eftir 3-1 tapið á móti Crystal Palace í gær en Liverpool-liðið hefur nú aðeins náð í eitt stig út úr síðustu fjórum deildarleikjum sínum.

Brendan Rodgers: Ég veit vel að ég þarf að fara vinna leiki

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, tók fulla ábyrgð á tapi liðsins á móti Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í gær en Liverpool, sem komst í 1-0 í leiknum, tapaði leiknum 3-1 og er þar með búið að tapa þremur deildarleikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×