Enski boltinn

Rio fékk þriggja leikja bann fyrir niðrandi ummæli um konur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
QPR verður án miðvarðarins Rio Ferdinand næstu þrjá leikina en leikmaðurinn var í dag úrskurðaður í þriggja leikja bann af enska knattspyrnusambandinu.

Ástæðan er að hann notaði slanguryrði í færslu á Twitter-síðu sinni sem þykir niðrandi fyrir konur.

Í umræddri færslu var hann að svara öðrum sem gaf í skyn að QPR þyrfti sennilega á nýjum miðverði að halda. Ferdinand svaraði viðkomandi með því að hvetja móður hans til að bjóða sig í verkið og notaði orðið „sket“ sem þykir vísa til lauslátrar stúlku eða konu.

Færsluna skrifaði hann þann 1. september og má sjá hér fyrir neðan. Ásamt leikbanni fékk Ferdinand tæplega fimm milljóna króna sekt og alvarlega áminningu. Honum er einnig gert að sækja námskeið á vegum enska sambandsins.

Ferdinand lék á sínum tíma 81 landsleik fyrir hönd Englands og er í sérstakri nefnd á vegum Greg Dyke, formanns enska knattspyrnusambandsins, sem fjallar um leiðir til að bæta knattspyrnuna í Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×