Innlent

Ríkisstjórnarflokkarnir fá falleinkunn í loftslagsrýni

Þorgeir Helgason skrifar
Frá loftslagsgöngunni 2014.
Frá loftslagsgöngunni 2014. vísir/valli

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn fengu falleinkunn í loftslagsrýni sem unnin var á dögunum af fréttavefnum Loftslag.is. Vefurinn rýndi í mikilvægi loftlagsmála hjá þeim sjö stjórnmálaflokkum sem hafa mesta möguleika að ná manni inn á þing samkvæmt skoðanakönnunum.



Gefnar voru einkunnir út frá sjö þáttum en þeir þættir sem skiptu hvað mestu máli fyrir niðurstöðu greiningarinnar voru: hvort flokkurinn væri með eða á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu, hvort flokkurinn hefði sett sér tölu- og/eða tímasett markmið varðandi samdrátt í losun CO2 og hvort gert væri ráð fyrir kolefnisgjaldi eða hagrænum hvötum á losun gróðurhúsalofttegunda.



Vinstrihreyfingin – grænt framboð var sá flokkur sem kom best út úr greiningunni með 64 stig af 100 mögulegum en Björt framtíð fylgdi fast á hæla Vinstri grænna með 60 stig. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu hins vegar falleinkunn í greiningunni, Sjálfstæðisflokkurinn hlaut sjö stig og Framsóknarflokkurinn fjögur stig.



„Með þessari rýni erum við annars vegar að sýna kjósendum hvar áherslurnar liggja og hins vegar að hvetja stjórnmálaflokkana til þess að veita loftslagsmálunum meiri athygli. Viku fyrir kosningar verða einkunnirnar uppfærðar og þangað til hafa stjórnmálaflokkarnir tækifæri til þess að skýra stefnur sínar í loftslagsmálum,“ segir Höskuldur Búi Jónsson, jarðfræðingur og ritstjóri Loftslags.is.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×