Innlent

Ríkisendurskoðun gagnrýnir styrkveitingar forsætisráðherra

Randver Kári Randversson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Vísir/GVA
Ríkisendurskoðun gagnrýnir hvernig forsætisráðuneytið stóð að úthlutun styrkja til atvinnuskapandi minjaverndarverkefna í árslok 2013. Einnig gagnrýnir stofnunin hvernig staðið var að úthlutun styrkja til atvinnuuppbyggingar og fjölgunar vistvænna starfa á árunum 2012 og 2013. Ríkisendurskoðun hvetur ráðuneytið til að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar. Þá sé mikilvægt að ráðuneytið setji beiðnir sínar til Alþingis um fjárveitingar (fjárlagabeiðnir) ávallt fram á skýran og lýsandi hátt. Enn fremur sé mikilvægt að skýra hvar ábyrgð á verkefnum „græna hagkerfisins“ liggi en það er óljóst að mati Ríkisendurskoðunar. Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um úthlutanir forsætisráðuneytisins á styrkjum til ýmissa verkefna á sviði atvinnuuppbyggingar, minjaverndar og tengdra málefna. Meðal annars kemur fram að í desember 2013 úthlutaði ráðuneytið samtals 205 milljónum króna til 24 verkefna. Féð var sótt til tveggja fjárlagaliða, svonefndra safnliða. Í skýrslunni er vakin athygli á því að flest þessara verkefna gátu sótt um styrki úr lögbundnum sjóðum en samkvæmt tilkynningu Alþingis frá árinu 2011 skal ekki úthluta styrkjum af safnliðum til verkefna sem falla undir slíka sjóði.

Fram kemur að umræddir styrkir voru ekki auglýstir opinberlega heldur voru styrkþegar valdir af forsætisráðherra að fengnum umsögnum frá stofnunum ráðuneytisins. Ríkisendurskoðun gagnrýnir þetta og bendir á að opinber auglýsing styrkja eykur líkur á að jafnræði og gagnsæi sé tryggt við úthlutun þeirra. Að mati stofnunarinnar er mikilvægt að öllum aðilum sem uppfylla sett viðmið um styrkveitingar sé gefinn kostur á að sækja um. Ríkisendurskoðun beinir því til ráðuneytisins að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar í samræmi við almennar reglur stjórnsýslulaga og vandaða stjórnsýsluhætti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×