Viðskipti innlent

Reykjanesbær setur lánveitendum afarkosti

Ingvar Haraldsson skrifar
Hafnargata í Reykjanesbæ.
Hafnargata í Reykjanesbæ. vísir/gva
Reykjanesbær hefur gefið lánardrottnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF), frest þar til á morgun, 5. febrúar, til að ganga að tillögu bæjarins um afskriftir skulda samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Gangi það ekki eftir sé bænum nauðugur einn kostur að óska eftir því við innanríkisráðuneytið að það skipi fjárhagsstjórn yfir sveitarfélaginu sem tæki yfir stjórn fjármála Reykjanesbæjar.

Samþykkt var að senda bréfið á fundi bæjarráðs síðasta föstudag með atkvæðum þriggja fulltrúa meirihlutans gegn atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í gær engin viðbrögð hafa borist við bréfinu enda fresturinn ekki runninn út.

EFF er í eigu Reykjanesbæjar en félagið á meðal annars skóla, leikskóla og sundlaugar sem Reykjanesbær rekur.

Heimildir Fréttablaðsins herma að sáttatillaga bæjarins feli í sér að 6,8 milljarðar verði afskrifaðir af skuldum Reykjanesbæjar en þar mun stærsti hlutinn vera af skuldum EFF. Lánardrottnar bæjarins hafa hins vegar ekki verið tilbúnir að afskrifa meira en 5,1 milljarð af lánum til bæjarins. Skuldir A- og ­B-hluta Reykjanesbæjar námu í árslok 2014 samtals um 40 milljörðum króna en skuldir EFF tæplega 8 milljörðum. Stærstu lánardrottnar EFF eru Íslandsbanki, Landsbankinn og þá átti Glitnir stóra kröfu sem afhent var ríkinu.

Viðræður Reykjanesbæjar og lánardrottna hafa staðið í að verða ár. Markmið viðræðna Reykjanesbæjar hefur verið að gera bænum kleift að komast undir lögbundið 150 prósenta skuldahlutfall fyrir árið 2022 en skuldahlutfallið stóð í 253,6 prósentum í árslok 2014.

Þá hefur Reykjaneshöfn verið í greiðslustöðvun frá 15. október. Reykjanesbær hefur farið fram á að ábyrgð bæjarins af skuldum hafnarinnar verði felld niður. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×