Viðskipti innlent

Reykjanesbær óskar ekki eftir skipun fjárhaldsstjórnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
vísir/gva
Reykjanesbær hefur ákveðið að leita ekki eftir því, að svo komnu máli, að bænum verði skipuð fjárhagsstjórn. Þetta segir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í tilkynningu til fjölmiðla.

Í Fréttablaðinu kom fram í gær að Reykjanesbær hafi veitt stærsta kröfuhafa Reykjanesbæjar, sem eru um leið kröfuhafar Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. frest til dagsins í dag til þess að bregðast við tillögu Reykjanesbæjar um afmörkun á skuldavanda sveitarfélagsins. Þetta var svo staðfest með tilkynningu til Kauphallarinnar síðar um daginn. Kröfuhafarnir eru Glitnir HoldCo ehf. f.h. Ríkissjóðs Íslands, Landsbankinn og Íslandsbanki.

Í tilkynningu til fjölmiðla núna kemur fram að viðræður við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. hafi skilað árangri og aðilar sammælst um umfang skuldavanda sveitarfélagsins. Í kjölfarið muni vinna við fjárhagslega endurskipulagningu Reykjanesbæjar og stofnanna þess halda áfram. Rætt verði við aðra kröfuhafa bæjarfélagsins og stofnana þess á grundvelli viðræðna við kröfuhafa Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. Kapp verður lagt á að ljúka þeim eins fljótt og auðið er.

„Viðræðum síðustu daga hefur miðað í rétta átt og höfum við ákveðið að halda þeim áfram. Því verður ekki leitað eftir því, að svo komnu máli, að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhagsstjórn“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×