Innlent

Reiðhjólaþjófafaraldur á höfuðborgarsvæðinu

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Á rúmum tveimur vikum hefur lögreglu borist 41 tilkynning um reiðhjólastuld. Dæmi eru um skipulagða starfsemi þar sem hjólunum er kippt upp í sendiferðabíla og jafnvel send út fyrir landsteinana.
Á rúmum tveimur vikum hefur lögreglu borist 41 tilkynning um reiðhjólastuld. Dæmi eru um skipulagða starfsemi þar sem hjólunum er kippt upp í sendiferðabíla og jafnvel send út fyrir landsteinana. vísir/stefán
Nokkuð hefur borið á reiðhjólaþjófnaði víða á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Vandamálið hefur verið viðvarandi undanfarin ár, en sjaldan eins mikið og nú. Frá byrjun mánaðar hefur lögreglu borist 41 tilkynning um reiðhjólastuld og er fólk því hvatt til að gæta vel að reiðhjólum sínum.

Benedikt Lund lögreglumaður segir í samtali við Vísi að vitað sé til þess að þjófagengi fari á skipulagðan hátt um borgina á sendiferðabílum og steli hjólum hvar sem til þeirra næst. Þjófarnir gangi jafnvel svo langt að fara inn í húsnæði til að sækja sér reiðhjól en tvö slík mál hafa komið upp á borð lögreglu á undanförnum tveimur vikum. Þá segir hann dæmi um að hjólin séu jafnvel send út fyrir landsteinana. Erfiðara sé þó að fylgjast með gámaútflutningi.

„Þeir eru oft með mjög öflugar tangir og ná að klippa í sundur mjög öfluga lása. Þetta eru engir unglingar,“ segir Benedikt.

Nokkur umræða hefur verið um reiðhjólaþjófnað inni á hverfishópum á Facebook. Laugarneshverfið er þar á meðal og hefur mikil umræða spunnist um stuldinn. Benedikt staðfestir að óvenju mörg tilfelli hafi komið upp í Austurbænum í þessum mánuði, eða sautján talsins. Hann hvetur fólk því til að fylgjast vel með hjólunum, best sé ef fólk geti læst þau inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×