Innlent

Reglurnar ekki í gildi þegar keypt var inn

Innkaupin umræddu vörðuðu einkum óeirðabúninga, gasgrímur og piparúða. Keypt var af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða ættingja þeirra.
Innkaupin umræddu vörðuðu einkum óeirðabúninga, gasgrímur og piparúða. Keypt var af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna eða ættingja þeirra. fréttablaðið/anton
Haraldur Johannessen
„Ábending Ríkisendurskoðunar um meint lögbrot ríkislögreglustjóra við innkaup á búnaði var byggð á reglugerð sem var ekki í gildi þegar innkaupin áttu sér stað.“

Þetta segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, spurður um innihald greinargerðar sem embætti ríkislögreglustjóra sendi innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, fyrr í mánuðinum í kjölfar ábendinga Ríkisendurskoðunar um innkaup löggæslustofnana á tímabilinu 2008 til 2011. Ríkisendurskoðandi taldi að ríkislögreglustjóri hefði átt að bjóða út kaup fyrir 12,6 milljónir króna og leita verðtilboða fyrir um sjö milljónir króna.

„Við bendum á það í okkar greinargerð til innanríkisráðherra, að sú reglugerð sem ríkisendurskoðandi styðst við og byggir meginniðurstöðu sína á var ekki í gildi á þeim tíma sem innkaupin áttu sér stað. Innkaupin fóru fram árið 2009, en reglugerðin tók ekki gildi fyrr en ári síðar. Þetta er grundvallaratriði í ábendingu Ríkisendurskoðunar og er því áfellisdómur yfir vinnubrögðum hennar.“

Ríkislögreglustjóri segir að skilja hafi mátt ummæli Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda í fjölmiðlum þannig að ríkislögreglustjóri bæri ábyrgð á 91,3 milljóna króna innkaupum til lögreglunnar í landinu, sem sé alrangt.

„Meira að segja telur Ríkisendurskoðun að ríkislögreglustjóri beri ábyrgð á innkaupum Fangelsismálastofnunar ríkisins, sem er líka alrangt.“

Þá segir Haraldur sýnt fram á í greinargerð embættisins að fyllilega lögmætt hafi verið að kaupa vörurnar með þeim hætti sem gert var og á þeim tíma sem um ræðir.

„Það er skýrt ákvæði í lögum um opinber innkaup sem veitir heimild til að standa að málum eins og við gerðum. Hér vísa ég til 33. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Okkar lögfræðilega mat er rökstutt í greinargerð embættisins til innanríkisráðherra. Auk þessa var leitað álits erlends lögfræðings sem er doktor í lögum og sérfræðingur í Evrópurétti. Hann staðfestir að ríkislögreglustjóra hafi verið heimilt samkvæmt Evrópurétti að standa að málum eins og gert var.“

jss@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×