Enski boltinn

Real Madrid ætlar að kaupa Hazard og Courtois frá Chelsea

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eden Hazard á útleið hjá Chelsea?
Eden Hazard á útleið hjá Chelsea? vísir/getty
Real Madrid ætlar að gera tilboð í Chelsea-mennina Eden Hazard og Thibaut Courtois í sumar samkvæmt frétt á vef enska blaðsins The Guardian.

Belgísku landsliðsmennirnir eru á góðri leið með að verða enskir meistarar öðru sinni en Real vill fara að hrista upp í sinni sveit með tveimur stórum nöfnum. Courtois hefur þó opinberlega sagt að hann vill ekki yfirgefa London.

Real Madrid er búið að teikna upp hvernig það ætlar að landa Hazard og er búið að hafa samband við forsvarsmenn hans. Yfirmenn á Bernabéu hafa ekki áhyggjur af fjölda stórstjarna hjá Real eins og staðan er núna og er á því að alltaf verði hægt að finna pláss fyrir Hazard.

Spænski risinn er tilbúinn að selja leikmenn eins og Álvaro Morata og James Rodríguez til að búa til pláss fyrir Hazard í liðinu auk þess sem það myndi afla tekna sem gera félaginu auðveldara um vik að kaupa Hazard og borga honum himinhá laun.

Real langar enn þá mest af öllu að fá David De Gea frá Manchester United en veit að menn á Old Trafford hafa engan áhuga á að sleppa honum. Því hefur spænska félagið beint sjónum sínum að Thibaut Courtois.

Hinn 24 ára gamli Courtois spilaði áður í Madríd með Atlético en hann er samningsbundinn til ársins 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×