Fótbolti

Rauða stjarnan hafði betur gegn ÍBV| 2-0

Stefán Árni Pálsson skrifar
ÍBV tapaði fyrir Rauðu stjörnunni, 2-0, í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en leikurinn fór fram í Belgrad í kvöld.

Þetta byrjaði allt saman vel fyrir heimamenn þegar Nejc Pecnik skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmlega tíu mínútna leik.

Rétt eftir mark heimamanna náðu Eyjamenn að skora mark sem var dæmt af, rangur dómur og markið átti alltaf að standa.

Mikill hiti var í Belgrad í kvöld og erfiðar aðstæður fyrir leikmenn ÍBV til að spila. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Eyjamenn stóðu lengi vel í heimamönnum en rothöggið kom fimmtán mínútum fyrir leikslok þegar Nikola Mijailović skoraði annað mark Rauðu stjörnunnar.

Mijailović prjónaði sig í gegnum tvö varnamenn ÍBV og kom fínu skoti á markið sem David James náði ekki að koma vörnum við.

Niðurstaðan því  2-0 tap í fyrri leiknum en sá síðari verður greinilega gríðarlega erfiður fyrir Eyjamenn. Hann fer fram á Hásteinsvelli eftir viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×