Innlent

Raska minjum um vegagerð kollega sinna úr fyrri heimsstyrjöldinni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Framkvæmdir við gatnamót Norðurljósavegar og Grindavíkurvegar.
Framkvæmdir við gatnamót Norðurljósavegar og Grindavíkurvegar. mynd/siggeir f. ævarsson
Skemmdir hafa orðið á gamla Grindavíkurveginum vegna framkvæmda við gatnamót núverandi Grindavíkurvegar og Norðurljósavegar að sögn Minjastofnunar Íslands.

Gamli Grindavíkurvegurinn var lagður á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar, frá 1914 til 1918.

Hann var greiddur að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu af Grindvíkingum. Vegurinn er enn sýnilegur á köflum og rústir gerða og búða vegagerðarmanna eru varðveittar. Notaðir voru hestar við byggingu vegarins.

„Rör sem „skotið“ var undir Grindavíkurveginn kemur upp í miðjum gamla veginum. Um það bil 50 metrum norðar lá gamli vegurinn yfir klöpp. Búið er að brjóta klöppina niður á um 35 metra kafla og raska þar með gamla veginum,“ segir Minjastofnun í bréfi til Vegagerðarinnar.

Fram kemur að við vettvangsskoðun hafi fulltrúi verktakans sagt að hann hefði engar upplýsingar haft um minjarnar eftir gamla veginn. „Gamla veginum verður ekki raskað meira en orðið var og ætlunin er að fjarlægja grjót ofan af þeim hluta vegarins sem hulinn var,“ segir ennfremur. Minjastofnun segist gera „alvarlegar athugasemdir“ við málið og frístunda- og menningarnefnd Grindavíkur, sem fjallaði um málið á fundi sínum, kveðst taka undir þær athugasemdir.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×