Erlent

Rannsókn á dauða Arafat hætt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yasser Arafat var greindur með alvarlegan blóðsjúkdóm skömmu áður en hann lést vegna heilablóðfalls þann 8. nóvember 2004, 75 ára að aldri.
Yasser Arafat var greindur með alvarlegan blóðsjúkdóm skömmu áður en hann lést vegna heilablóðfalls þann 8. nóvember 2004, 75 ára að aldri. Vísir/AFP
Franskir dómarar sem rannsakað hafa möguleikann á því að eitrað hafi verið fyrir Yasser Arafat, leiðtoga Palestínumanna sem dó árið 2004, hafa hætt rannsókn málsins.

Yasser Arafat var greindur með alvarlegan blóðsjúkdóm skömmu áður en hann lést vegna heilablóðfalls þann 8. nóvember 2004, 75 ára að aldri.

Í frétt BBC kemur fram að eiginkona hans, Suha Arafat, hafi haldið því fram að eitrað hafi verið fyrir eiginmanni sínum, mögulega með hinu geislavirka efni pólóníum-210.

Árið 2012 kannaði sjónvarpsstöðin Al-Jazeera, með hjálp svissneskra rannsakenda, möguleikann á því hvort að eitrað hafi verið fyrir Arafat. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar rannsóknar fannst óeðlilega mikið magn af pólóníum-210 á persónulegum munum Arafat. Í kjölfar rannsóknarinnar kallaði eiginkona hans eftir því að lík hans yrði grafið upp.

Þremur rannsóknarteymum - frá Rússlandi, Sviss og Frakklandi - var heimilað að taka sýni úr gröf Arafat en fyrr á árinu gaf franska rannsóknarteymið það út að leifar af pólóníum-210 sem finna mátti í sýnunum hefðu verið þar af náttúrulegum orsökum.

Rannsóknardómararnir í Frakklandi, sem falið var að rannsaka málið, hafa nú komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið hægt að sýna fram á að eitrun hafi valdið dauða Arafat.

Tawfiq Tirawi, yfirmaður rannsóknar palestínskra yfirvalda á dauða Arafat, sagði í samtali við AFP að af þeirra hálfu myndi rannsókn málsins halda áfram, allt þangað til það væri komið á hreint hvað hafi valdið dauða Arafat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×