Enski boltinn

Ranieri verður síðasti maðurinn til að frétta af Englandsmeistaratitlinum í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Claudio Ranieri náði í stig með sína drengi á Old Trafford.
Claudio Ranieri náði í stig með sína drengi á Old Trafford. vísir/getty
Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leicester, mun ekki horfa á leik Chelsea og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en takist Spurs ekki að vinna þar verður Leicester Englandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Leicester með átta stiga forskot eftir jafntefli á Old Trafford í gær en Tottenham verður að vinna rest og vona að Leicester tapi síðustu tveimur leikjum sínum ætli Lundúnarliðið að fagna titlinum.

Þetta er þó engin hjátrú eða neitt slíkt hjá Ranieri. Hann bara einfaldlega getur ekki horft á leikinn þar sem hann verður í 30.000 fetum.

„Ég væri til í að horfa á Tottenham-leikinn en ég verð í flugvél á leið heim frá Ítalíu. Móðir mín varð 96 ára og mig langaði að snæða hádegisverð með henni. Ég verð síðasti maðurinn á Englandi til að heyra fréttirnar [ef Leicester verður meistari],“ segir Ranieri.

Ítalinn hefur aldrei unnið deildartitil á ferlinum en er nú aðeins tveimur stigum frá því. Leikmenn Leicester geta fagnað á sófanum í kvöld ef Tottenham tekst ekki að vinna. Sagan er með Leicester því Tottenham hefur ekki unnið á Brúnni síðan 1990.

„Ég geng út frá því að Tottenham vinni alla þrjá leikina sem það á eftir. Nú einbeiti ég mér bara að leiknum gegn Everton. Við verðum að halda einbeitingu,“ segir Claudio Ranieri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×